Á ÁRUNUM 1991-2007 öðluðust 6.217 einstaklingar af erlendum uppruna íslenskt ríkisfang. Þetta má lesa út úr tölum á vef Hagstofu Íslands.

Á ÁRUNUM 1991-2007 öðluðust 6.217 einstaklingar af erlendum uppruna íslenskt ríkisfang. Þetta má lesa út úr tölum á vef Hagstofu Íslands. Nokkur stígandi er í fjölda veitinga því árið 1991 fékk alls 161 einstaklingur ríkisfang en fjöldinn var kominn upp í 844 á árinu 2006 og 647 árið 2007.

Fjöldi þeirra sem alls hafa fengið íslenskt ríkisfang frá árinu 1991 var tæplega 2% allra landsmanna 1. janúar sl. en þá voru þeir samtals ríflega 313 þúsund.

Samkvæmt upplýsingum frá Ólöfu Garðarsdóttur, deildarstjóra mannfjöldadeildar Hagstofunnar, er verið að vinna að gagnagrunni yfir alla þá einstaklinga af erlendum uppruna sem fengið hafa íslenskt ríkisfang en í slíkum gagnagrunni yrði m.a. hægt að sjá fjölda bæði fyrstu kynslóðar og annarrar kynslóðar innflytjenda. Að sögn Ólafar er stefnt að því að grunnurinn verði tilbúinn á næsta ári.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni voru 1. janúar sl. skráðir hérlendis ríflega 21 þúsund erlendir ríkisborgarar, sem þýðir að hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda var þá 6,8%. Aðspurð segir Ólöf þessa tölu frekar of háa en of lága, sem skýrist af því að yfirleitt taki mun styttri tíma að komast inn á íbúaskrá en út af henni aftur. „Hluti af því vinnuafli sem verið hefur hér er í reynd farandverkafólk þótt það fái skráningu í íbúaskrá,“ segir Ólöf og bendir á að liðið geti nokkrir mánuðir þar til einstaklingar sem flytjast af landi brott eru felldir úr íbúaskrá. Þetta komi t.d. fram þegar íbúaskrá Hagstofunnar er samkeyrð við skattgrunngögn en þar sést að fólk dettur út af staðgreiðsluskrá talsvert áður en það dettur út af íbúaskrá eða þjóðskrá.