STJÓRN ítalska flugfélagsins Alitalia hefur samþykkt yfirtökutilboð Air France-KLM upp á 138 milljónir evra, jafnvirði um 15 milljarða íslenskra króna.

STJÓRN ítalska flugfélagsins Alitalia hefur samþykkt yfirtökutilboð Air France-KLM upp á 138 milljónir evra, jafnvirði um 15 milljarða íslenskra króna. Í frétt á fréttavefnum TimesOnline segir að þetta sé nokkuð lægra verð en stjórnin hefði vonast til að fá fyrir félagið.

Alitalia hefur verið til sölu í rúmt ár en félagið hefur átt í miklum rekstrarerfiðleikum og verið rekið með tapi í langan tíma. Ýmis flugfélög höfðu sýnt áhuga á kaupum, svo sem hið rússneska Aeroflot, hið þýska Lufthansa sem og ýmis önnur evrópsk félög og bandarísk.

Salan á Alitalia hefur valdið töluverðu umróti innan ítölsku ríkisstjórnarinnar, því róttækir vinstrimenn hafa verið alfarið á móti því að félagið verði selt erlendum aðilum. Á sama tíma hefur almenningur hins vegar verið andvígur því að hið opinbera hafi þurft að dæla peningum í tapreksturinn.

Salan á Alitalia er háð ýmsum skilyrðum og þar á meðal þarf að liggja fyrir samþykki Evrópusambandsins.