Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.

Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

„ÞAÐ er af og frá að þessi munur sé að minnka,“ segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, um þá fullyrðingu Ástu Þorleifsdóttur, varaformanns Orkuveitu Reykjavíkur, í Morgunblaðinu í gær, að munur á kostnaði við að leggja loftlínur og jarðstrengi sé að minnka. Ásta segir að tími háspennulína sé liðinn.

„Þetta er reginmisskilningur. Það er rétt hjá Ástu að stálverð hefur hækkað mikið. Þau efni sem fara í jarðstrengina, þ.e. kopar, blý og plast í einangrun, hafa hins vegar hækkað mun meira en stálið. Þær röksemdafærslur sem hún nefnir halda því ekki vatni,“ segir Þórður.

Margfalt dýrara að setja línur í jörðu

Þórður segir að framleiðslugeta í verksmiðjum sem framleiða jarðstrengi sé ekki næg og það eigi sinn þátt í því að verð á jarðstrengjum hafi haldið áfram að hækka. Hann segist ekki treysta sér til að segja til um hvað gerist í framtíðinni, en búast megi við að byggðar verði nýjar strengjaverksmiðjur á komandi árum. Notkun á jarðstrengjum sé vaxandi því alls staðar í heiminum sé rætt um að setja línur í meira mæli í jörðu. Hann segist þó ekki vitað til þess að neins staðar í heiminum nema á Íslandi hafi verið settar fram kröfur um að allar nýjar raflínur verði settar í jörðu.

Þórður segir að kostnaður við jarðstrengi ráðist af tveimur þáttum, þ.e. rafsprennu á strengjunum og flutningsgetu. Það sé ekki mikill munur á kostnaði á loftlínum og rafstrengjum með 66 kw spennu og Landsnet horfi til þess að setja slík flutningsvirki í jörðu frekar en að byggja þau ofan jarðar. Á línum sem eru með 130 kw spennu séu jarðstrengirnir um tvöfalt dýrari. Á 200 kw línum með mikla flutningsgetu sé munurinn fjórfalt til fimmfalt meiri og allt upp í sjöfalt meiri á strengjum með mjög mikla flutningsgetu. Raflínur sem rætt er um að leggja á Reykjanesi eru með 200 kw spennu og mikill flutningsgetu.

Þórður segir að reiknað hafi verið út að ef það ætti að byggja allt núverandi flutningskerfi raforku í landinu myndi það kosta um 80 milljarða. Ef allt flutningskerfið yrði sett í jarðstrengi myndi það hins vegar kosta um 235 milljarða eða nærri því þrefalt meira. Þórður segir þessar tölur sýna að ef farið væri út í að setja línur í jörðu í stórum stíl myndi það óhjákvæmilega hafa veruleg áhrif á raforkuverð.

Stefnumörkun nauðsynleg

Fyrir Alþingi liggur núna þingsályktunartillaga um jarðstrengi. Þórður sagðist fagna því ef stjórnvöld tækju af skarið varðandi þessi mál. „Það er mjög mikilvægt að fá einhverja heildstæða stefnu um þessi mál til framtíðar þannig að við höfum eitthvað til vinna út frá. Það er engin stefna í þessum málum í dag.“

Línur verði rifnar

LANDSNET er enn í viðræðum við sveitarfélögin á Suðurnesjum um lagningu nýrrar háspennulínu á Reykjanesi, en henni er m.a. ætlað að flytja rafmagn til álvers í Helguvík. Þórður Guðmundsson segir að tillaga Landsnets geri ráð fyrir jarðstrengjum nálægt þéttbýli, t.d. við Reykjanesbæ. Einnig hafi Landsnet boðist til að taka niður raflínur eins og 130 kw línuna sem fyrir er á Reykjanesi, Sogslínu 2 sem liggur um Hellisheiði og Hamraneslínu 1 og 2 sem liggur í gegnum Heiðmörk.