— 24stundir/Sverrir
Vor er í lofti þrátt fyrir hvíta jörð og margir eflaust farnir að huga að vorverkum hvers kyns. Sumir kjósa að taka heimilið í gegn, skipta út gardínum og einhverjir ætla sér jafnvel að mála og moka út úr geymslunni.

Vor er í lofti þrátt fyrir hvíta jörð og margir eflaust farnir að huga að vorverkum hvers kyns. Sumir kjósa að taka heimilið í gegn, skipta út gardínum og einhverjir ætla sér jafnvel að mála og moka út úr geymslunni.

Litlir munir

Það þarf þó ekki endilega að ráðast í stórframkvæmdir til þess að gera heimilið bjart og fallegt. Litlir munir og falleg blóm gæða híbýlin nýju lífi. Eyðið því í uppáhaldsblómin ykkar, kaupið litrík teglös, fallega púða og aðra smáhluti en bjartir og litríkir munir fara ansi vel við hvítmálaða veggi en annars þarf að vanda valið og velja hluti sem tóna við litina á veggjum heimilisins. Stór kerti í sterkum litum punta einnig heilmikið upp á. Gangið frá munum sem ykkur þykja þungir og vetrarlegir, þeir mega alveg liggja í geymslunni yfir sumartímann en það getur létt heilmikið á rýminu að losa aðeins um það og leyfa uppáhaldshlutunum frekar að njóta sín.

Aukinn kraftur

Með hækkandi sól færist aukinn kraftur í marga en þessa krafta má nota til þess að gera upp húsgögn sem eru farin að láta á sjá. Pússið sófaborðið, málið hillurnar í barnaherberginu og hengið upp myndir. Liggið yfir tímaritum og fáið skemmtilegar hugmyndir fyrir vorið. Nýir lampaskermar geta einnig blásið nýju lífi í heimilið og er um að gera að velja skerma úr fallegu og skrautlegu efni fyrir vorið. Takið ykkur einnig til ef vel viðrar og þrífið rúðurnar að innan sem utan, þá nýtur allt sín miklu betur. Farið með gömlu munina úr bílskúrnum í endurvinnslu og komið röð og reglu á verkfærin sem á að nota þegar hægt er að hefjast handa í garðinum.

hilda@24stundir.is