VERKTAKAFYRIRTÆKIÐ Arnarfell hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Skiptastjóri var skipaður Árni Pálsson hrl. hjá Lögmannsstofunni ehf. á Akureyri.

VERKTAKAFYRIRTÆKIÐ Arnarfell hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Skiptastjóri var skipaður Árni Pálsson hrl. hjá Lögmannsstofunni ehf. á Akureyri.

Arnarfell bað um að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta í lok febrúar og var úrskurður um það kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands 3. mars sl. Segir í úrskurði Héraðsdóms að verulegar kröfur standi upp á félagið sem því sé ekki unnt að greiða. Geti félagið ekki staðið í skilum við lánardrottna, allt hlutafé sé uppurið og eignastaða neikvæð.

Arnarfell átti síðustu misserin í verulegum fjárhagskröggum, ekki síst vegna stórra verkefna við Kárahnjúkavirkjun. Starfsemi félagsins spannaði rúma tvo áratugi og var það alla tíð fjölskyldufyrirtæki. Auk verkefna við Kárahnjúkavirkjun hefur Arnarfell unnið að stóriðjuhöfn fyrir Fjarðabyggð, vegagerð og brúarsmíði um allt land, flugvallarbyggingu og snjóflóðavarnargörðum og framkvæmdum við Vatnsfellsvirkjun, Hágöngumiðlun, Sultartangavirkjun og Kvíslaveitur. Að auki rak fyrirtækið steypustöð á Akureyri og malarvinnslu víða um landið með færanlegum malarsamstæðum.