Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur thorakristin@24stundir.is „Þar sem barnið er ellefu ára og á því engar eignir, hefði að öllum líkindum ekki verið neina fjármuni til þess að sækja.

Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur

thorakristin@24stundir.is

„Þar sem barnið er ellefu ára og á því engar eignir, hefði að öllum líkindum ekki verið neina fjármuni til þess að sækja. Þess vegna hefði lögmaðurinn líklega valið að stefna aðeins skólanum en ekki barninu, ef móðirin hefði ekki verið tryggð,“ segir Hjördís E. Harðardóttir, lögmaður og sérfræðingur í skaðabótarétti, um málið í Mýrarhúsaskóla, þar sem móðir var dæmd til að greiða kennara skaðabætur. Hjördís segir jafnframt að þetta sé ástæðan fyrir því að sjaldan reyni á skaðabótaskyldu barna.

Fjölskyldutrygging bætir tjón af völdum barna undir tíu ára aldri, án tillits til skaðabótaskyldu. Eftir þann aldur þarf svo að meta hvort um bótaskyldu sé að ræða. Hefði stúlkan verið yngri „hefði tryggingafélagið greitt þetta umyrðalaust,“ segir Guðni Haraldsson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður kennarans. Málið hefði í því tilviki ekki farið fyrir dóm.

Hefði misst slysatrygginguna

Allir kennarar eru slysatryggðir skv. kjarasamningum og fá slysabætur ef þeir verða fyrir „varanlegri örorku“ vegna vinnuslyss. Í tilfelli kennara gætu dæmi um slíkt verið að detta í hálku og fótbrotna á skólalóðinni eða að vera handleggsbrotinn af nemanda. Að sögn Guðna fékk kennarinn greiddar 2,2 milljónir í slysabætur.

Í kjarasamningum kennara er ákvæði þess efnis að ef vinnuveitandi er gerður skaðabótaskyldur lækki skaðabæturnar sem slysabótunum nemur. Því hefði kennarinn fengið 2,2 milljónum minna ef sveitarfélagið hefði verið dæmt skaðabótaskylt, fyrir hönd skólans.

Vantar ítarlegri rökstuðning

Í dómnum kemur fram að stúlkan sé greind með Asperger-heilkenni og að fyrir dómi hafi legið „bæklingur“ um efnið, sem vísað er í. Þá segir að hún sé góður námsmaður samkvæmt gögnum auk þess að greina muninn á réttu og röngu. Niðurstaðan er að ekkert sé „í málinu sem bendir til þess að fötlun hennar hafi skert dómgreind hennar eða að vitsmunaþroski hennar hafi verið minni en almennt hjá börnum á sama aldri“.

„Ég furða mig á sakarmatinu á barninu sjálfu, sem er augljóslega með fötlun. Maður hlýtur að spyrja sig hvernig meta á sakhæfi hjá fötluðu barni. Það kemur fram í dómnum að barnið geri sér grein fyrir muninum á réttu og röngu en barnið er kannski með þá fötlun að geta ekki áttað sig á viðbrögðum annarra eða kann ekki að lesa í aðstæður. Þetta þarf náttúrlega að skoða og það hefði þurft að liggja betri rökstuðningur fyrir því af hverju þetta barn ber þessa bótaskyldu,“ segir Hjördís.

Sýknað þrátt fyrir gögn

„Það er merkilegt að sveitarfélagið, sem rekur skólann, skuli ekki hafa verið dæmt bótaskylt þar sem það lá fyrir að heilbrigðiseftirlitið á staðnum hafi lagt til að gerðar yrðu ráðstafanir til að draga úr hættu á slysum við rennihurðir skólans. Jafnframt lá fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns sem komst að þeirri niðurstöðu að vankantar hafi verið á umræddri hurð,“ segir Hjördís. Í dómnum kom fram að ekki hefði verið sýnt fram á að hurðin væri í ósamræmi við gildandi reglur um aðbúnað í skólahúsnæði.

Hvað vantar upp á?

Í hnotskurn
Atvikið átti sér stað í nóvember 2005. Stúlkan hafði farið inn í geymslu í skólanum. Hún skellti rennihurðinni á kennarann þegar hann kom að athuga um hana. Móðurinni var stefnt fyrir stúlkunnar hönd, fyrir að hafa valdið kennaranum tjóni. Sveitarfélaginu var einnig stefnt á þeim forsendum að hurðin uppfyllti ekki öryggiskröfur. Það var sýknað. Kennaranum voru dæmdar tæpar 11 milljónir í bætur. Örorka hans er metin 25%.