Góður ráðgjafi í almannatengslum hefði nú átt að lauma því að forystumönnum KSÍ að hafa bara ókeypis inn á leik Íslendinga og Færeyinga um helgina, þó að ekki væri nema til að hressa upp á ímynd KSÍ eftir alla umræðuna um stúkubyggingu og landsliðsmál.

Góður ráðgjafi í almannatengslum hefði nú átt að lauma því að forystumönnum KSÍ að hafa bara ókeypis inn á leik Íslendinga og Færeyinga um helgina, þó að ekki væri nema til að hressa upp á ímynd KSÍ eftir alla umræðuna um stúkubyggingu og landsliðsmál. Þó að halli undan fæti hjá styrktaraðilum KSÍ, eins og flestum fyrirtækjum landsins þessa dagana ættu þeir að hafa efni á að kosta eins og einn landsleik til fulls.

Kórinn var fámennur og raddlaus, eins og útsendingin í Sjónvarpinu virkaði á Víkverja, sem sat makindalega heima í stofu og sá enga ástæðu til að aka lengst upp í úthverfi til að borga tvö þúsund kall inn á vináttulandsleik við frændur vora frá Færeyjum. Að auki vantaði allar okkar helstu stjörnur. Landsliðið var byggt á ungum en efnilegum leikmönnum, sem flestir leika hér heima, og örfáir reynsluboltar innan um. Víkverji vill ekki ganga svo langt, sem sumir hafa gert, að tala um B-landslið. Þetta var að sjálfsögðu það A-landslið sem þjálfarinn stillti upp en liðsskipanin hafði áreiðanlega áhrif á aðsóknina. Ókeypis aðgangur hefði aukið á stemninguna og gefið strákunum meiri stuðning.

Þetta landslið hélt þó uppi heiðri og sóma Íslands, lagði Færeyinga að velli 3-0. Kannski er það lausnin á döpru gengi landsliðsins að undanförnu að tefla bara fram „heimamönnum“, ungum sem gömlum, og gefa atvinnumönnunum frí. Þeir eru margir hverjir orðnir það uppteknir af eigin frama innan sinna félagsliða að landsliðið á ekki lengur þann sess í hjarta þeirra sem nauðsynlegt væri. Menn eru ekki lengur að fórna sér fyrir málstaðinn eins og þeir gerðu hér áður fyrr.

Fyrst Víkverji er farinn að þusa um landsliðið og knattspyrnu má hann til með að hampa „sínum mönnum“ í Liverpool sem fara mikinn þessa dagana, eru ósigrandi í deildinni og á góðu skriði í Meistaradeildinni. Næsta „fórnarlamb“ á þeim vettvangi er Arsenal og Víkverji veit að margir aðdáendur þess liðs eru farnir að skjálfa á beinunum! Enda gefur gengi Arsenal í ensku úrvalsdeildinni síðustu vikur ekki tilefni til alltof mikillar bjartsýni, eitthvað er liðið að gefa eftir í baráttunni við Man. Utd um meistaratitilinn.

Ekki er aðeins framundan risaslagur tveggja góðra liða í Meistaradeildinni, þ.e. Liverpool og Arsenal, heldur stefnir einnig í átök áhangenda þeirra, sem vonandi verða meira bundin við munnleg átök en líkamleg. Þó ætlar Víkverji að hafa varann á sér og rifja upp gömlu góðu glímutökin!