Þorsteinn Þorsteinsson vélstjóri fæddist í Vestmannaeyjum 17.1. 1927. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 1. mars sl.

Þorsteinn var jarðsunginn frá Landakirkju í Vestmannaeyjum 15. mars sl.

Langri og erfiðri baráttu vinar míns Dodda í olíunni lauk með sigri dauðans. Doddi þráði þá hvíld. Þrátt fyrir skemmtilegheit þar sem Doddi blés oft í seglin voru aðstæður hans afar erfiðar mörg síðustu árin. Ég vil þakka þessum góða vini skemmtilega samferð í lífinu sem verður mér ógleymanleg og ég held aftur af mér við ritun þessara kveðjuorða og hristist af hlátri yfir minningunum um aldraðan vin.

Kynni okkar voru afar skemmtileg, báðir ófeimnir að láta allt vaða og ekki var það allt mjög kristilegt. Doddi gat verið mjög óheflaður í orðfæri og hafði mjög sterkar skoðanir á mönnum og málefnum þar sem menn voru annaðhvort hafnir til skýjanna eða hann sendi þá til andskotans, hann gat verið afar beittur. Doddi bjó í fjöldamörg ár við erfiðan sjúkdóm, hann gekk lengi við staf, örlítið hokinn, haltur og tók stutt skref þar sem hann dró aðeins fæturna. Doddi var flottur kall sem setti mark sitt á umhverfið, gott ef hann var ekki svolítið líkur Ronald Reagan þegar hann rölti Vesturveginn, nema hvað hann var miklu frægari en hann í Eyjum. Hann tók í nefið og fannst gott að fá sér brjóstbirtu aðeins í tappa, það linaði þjáningarnar um stund.

Doddi gat verið kostulegur á köflum, stríðinn og skemmtilegur. Hann hafði einu sinni beðið mig um skötu í soðið og ég sagði honum að sækja skötuna niður í vinnu. Þegar ég kom þangað sagði starfsmaður mér að gamall kall hefði komið og stolið allri skötunni. Þá birtist Doddi og peyinn sagði: „Þarna kemur skötuþjófurinn“. Ég held ég hafi aldrei kallað hann annað en skötuþjófinn eftir þetta í okkar samtölum og fjölmargar kveðjur sem Elías bróðir flutti mér af sjúkrahúsinu voru alltaf eins: „Skötuþjófurinn biður að heilsa.“

Doddi hafði þennan húmor fyrir sjálfum sér og ég sleppti ekki tækifæri að heimsækja hann á sjúkrahúsið þegar ég kom til Eyja að heilsa upp á vininn og þá sem þar dvöldu. Þá var allt látið vaða og ekki stóð á kallinum, brúkaði kjaft og grobbaði um sjálfan sig. Doddi var mikill sjálfstæðismaður og nánast leit niður á aðra stjórnmálaflokka. Einu sinni þegar ég kom í heimsókn var verið að gefa Dodda blóð og ég segi strax: „Þeir segja að þú fáir blóð úr Stalín.“ Doddi brást illur við og sagði: „Haltu kjafti, ég fæ blóð úr Davíð Oddssyni og hunskastu út. Hjúkkunni líst það vel á mig að hún gæti misst lystina á mér, bara með því að því að sjá framan í þig.“ Hann þóttist oft hafa gert þeim gott hjúkkunum. Í síðustu heimsókn Kollu dóttur hans og Sverris var sá gamli mjög veikur. Kolla bauð upp á smá koníak til að lina þjáningarnar, sem hann þáði án þess að opna augun. Kolla spurði hvort Sverrir mætti fá sér smá tappa líka en sá gamli harðneitaði því. Hann var að stríða tengdasyni sínum, það síðasta sem hann gerði í lífinu. Doddi kvaddi með stæl, átti síðasta orðið.

Ásmundur Friðriksson

vinur.

Fyrir rúmum aldarfjórðungi flutti ég til Vestmannaeyja og kynntist þar miklum fjölda ágætis fólks. Þar í bæ, eins og annars staðar, hefur hver maður sín séreinkenni en fólk verður misjafnlega eftirminnilegt.

Ég þurfti ekki á olíuviðskiptum að halda en hjá Skeljungi starfaði Doddi í olíunni. Okkur féll vel hvorum við annan og flestar þær stundir er við hittumst voru fagnaðarfundir. Ekki ætla ég að segja að allt hafi það verið Guðs orð sem féll af vörum okkar og ekki ætla ég heldur að segja að við höfum alltaf talað varlega um náungann. Undir niðri var alltaf væntumþykja.

Þorsteinn, Doddi eins og hans nánustu kölluðu hann, var hetja hversdagsins, sem gekk til sinna starfa og ól sín börn upp. Hann tók hörmum sínum með stillingu, hann mátti sjá á eftir konu sinni inn í óminnisheima um aldur fram og hann fór á sjúkrahúsið til Laufeyjar dag hvern og mátti stilla klukku eftir ferðum hans. Síðar þegar Þorsteinn sonur hans féll frá um aldur fram bar hann harm sinn í hljóði.

Doddi var íhald, sem ekki hugsaði um stjórnmál, honum fannst sjálfsagt að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það var Dodda einstakur heiður þegar sjálfstæðismenn kusu Davíð formann, því þeir áttu sama afmælisdag, þeir ágætu íhaldsmenn, rétt eins og Al Capone hinn ítalskættaði Bandaríkjamaður, sem frægur var af endemum, og svo náttúrlega óskabarn þjóðarinnar, Eimskipafélag Íslands.

Atvik höguðu því svo að ég flutti frá Eyjum fyrir um 20 árum. Vinátta okkar Dodda dofnaði ekki við það, hann skammaði mig nokkrum sinnum fyrir að flytja. Hann sagði stundum að það væri allt fullt af neföpum eftir í Eyjum. Ég gat lítið sagt við því. Fyrir um viku síðan leit ég til hans á sjúkrahúsið og þá var mjög af honum dregið og hann saddur lífdaga.

Þegar Doddi er allur er ég þakklátur fyrir að hafa kynnst jafnágætum manni og eiga vináttu hans. Ef líf er fyrir handan er Doddi örugglega búinn að hitta Laufeyju aftur.

Farðu vel, vinur. Guð geymi Þorstein Þorsteinsson.

Vilhjálmur Bjarnason.