HÁSKÓLINN í Reykjavík og IESE Business School í Barcelona hefja í apríl samstarf um nám fyrir æðstu stjórnendur íslenskra fyrirtækja. Námið, s.k. AMP (Advanced Management Program), mun fara fram bæði í Reykjavík og í Barcelona.

HÁSKÓLINN í Reykjavík og IESE Business School í Barcelona hefja í apríl samstarf um nám fyrir æðstu stjórnendur íslenskra fyrirtækja. Námið, s.k. AMP (Advanced Management Program), mun fara fram bæði í Reykjavík og í Barcelona. Kynning á náminu fer fram í Háskólanum í Reykjavík í dag, þriðjudag, og hefst hún klukkan 17. Kynninguna annast Svafa Grönfeldt rektor og HR og Eric Weber, aðstoðarrektor IESE.

IESE er talinn meðal fremstu viðskiptaháskóla í heimi, en hann hefur t.d. verið í efsta sæti á lista Financial Times fyrir bestu stjórnendaþjálfun viðskiptaháskóla í Evrópu undanfarin fimm ár, segir í frétt frá HR.

Námið tekur hálft ár, kennt er í lotum og fer síðasti fjórðungur námsins fram við IESE í Barcelona. Áherslur í náminu eru alþjóðlegar og eru kennarar frá löndum beggja vegna Atlantshafsins – flestir frá IESE en einnig frá London Business School, Richard Ivey School of Management og NASA.

AMP stendur fyrir Advanced Management Program og er nám ætlað æðstu stjórnendum fyrirtækja. AMP hefur verið kennt um langa hríð við fremstu viðskiptaháskóla í heimi, m.a. við Harvard-háskóla frá 1945 og við IESE í meira en 50 ár. Kennsla byggist mest á s.k. case-aðferð, en hún þykir henta mjög vel til stjórnendaþjálfunar. Í náminu er farið yfir þætti eins og stjórnun og leiðtogafræði, fjármál, aðgerðastjórnun, stefnumótun, markaðsmál, samningatækni, frumkvöðla og nýjungafræði. Skerpt er á leiðtogahæfileikum og þátttakendum kenndar aðferðir sem gera þeim kleift að grípa tækifæri og takast á við erfiðar aðstæður og verkefni.

„AMP nám hér við skólann er mikilvægur liður í því að bjóða fyrirtækjum upp á það besta sem gerist í stjórnendamenntun og þjálfun í heiminum í dag. Það skiptir afar miklu fyrir HR að njóta samstarfs við IESE og ráðgjafar við uppsetningu og rekstur námsins,“ er haft eftir Svöfu Grönfeldt í tilkynningunni.