Norðlendingar hafa lengi þurft að sætta sig við rándýr ferðalög til Keflavíkur áður en þeir geta haldið af landi brott.

Norðlendingar hafa lengi þurft að sætta sig við rándýr ferðalög til Keflavíkur áður en þeir geta haldið af landi brott.

Það verður þó ekki málið í sumar þar sem Icelandair hefur ákveðið að bjóða upp á millilandaflug til allra áfanga sinna í Evrópu auk New York og Boston, beint frá Akureyrarflugvelli.

Morgunflug að norðan

Farþegar fara í innritun og tollskoðun á Akureyri, fljúga þaðan og koma inn í Leifsstöð sem millilandafarþegar.

Flogið er að norðan á mánudags-, fimmtudags- og föstudagsmorgnum kl. 05.50 og lent í Keflavík kl. 06.40 eða skömmu fyrir brottfarir Icelandair út til Evrópu. Jafnframt tengist morgunflugið að norðan við nýja brottfarartíma á flugi Icelandair til New York og Boston, en þangað verður flogið kl. 10.30 yfir sumartímann.

Þegar farþegar til Akureyrar koma erlendis frá og lenda síðdegis á Keflavíkurflugvelli þurfa þeir ekki að hafa neitt umstang í kringum farangur sinn í Leifsstöð, þar sem farangurinn er innritaður alla leið á áfangastað.

Styttra til útlanda

Fólk fær svo farangur sinn á Akureyri og fer þar í gegnum tollskoðun. Brottför frá Keflavík er kl. 18:00 og lent á Akureyrarflugvelli kl. 18:50.

Margir munu án efa fagna því að ferðir til útlanda séu einfaldaðar enda hafa Norðlendingar sjaldan getað nýtt sér stuttar ferðir til útlanda án þess að þurfa að gera ráð fyrir löngu ferðalagi með töluverðum tilkostnaði.

Allar nánari upplýsingar um ferðirnar er hægt að fá á vefsíðunni www.icelandair.is.

iris@24stundir.is