ENDURMENNTUN Háskóla Íslands stendur fyrir námskeiði fyrir hjúkrunarfræðinga föstudaginn 4. apríl kl. 8,30. Kennarar verða Guðlaug Guðmundsdóttir og Margrét Pálsdóttir.
ENDURMENNTUN Háskóla Íslands stendur fyrir námskeiði fyrir hjúkrunarfræðinga föstudaginn 4. apríl kl. 8,30. Kennarar verða Guðlaug Guðmundsdóttir og Margrét Pálsdóttir. Námskeiðið skiptist annars vegar í framsetningu ritaðs máls og hins vegar munnlega færni. Í ritunarhlutanum er kennt hvernig stíll og uppbygging greinar mótast af viðfangsefni hennar og mismunandi tilgangi, sem og væntingum lesenda. Bent er á einfaldar lausnir til að fanga hugmyndir, flokka þær og skipuleggja í efnisgrind. Forritið MindManager verður kynnt stuttlega. Hlutverk inngangs, meginmáls og niðurlags verða útskýrð og sérstakur gaumur er gefinn að byggingu efnisgreina. Einnig verður vikið að mikilvægi þess að rödd höfundar heyrist. Rædd verða ýmis algeng lýti í málfari. Í munnlega þættinum verður fjallað um framkomu í fjölmiðlum. Gefin verða hagnýt ráð er tengjast undibúningi fyrir viðtöl við dagblöð, útvarp og sjónvarp. Tekið verður upp stutt myndskeið til að greina styrk og veikleika þátttakenda og gefa einstaklingsmiðaðar leiðbeiningar.