Slagur TaKesha Watson lék vel með Keflavík í gærkvöld og skoraði 34 stig, og hér grípur hún boltann í harðri baráttu við Guðbjörgu Sverrisdóttur úr Haukum. Hrönn Þorgrímsdóttir úr Keflavík er á milli þeirra.
Slagur TaKesha Watson lék vel með Keflavík í gærkvöld og skoraði 34 stig, og hér grípur hún boltann í harðri baráttu við Guðbjörgu Sverrisdóttur úr Haukum. Hrönn Þorgrímsdóttir úr Keflavík er á milli þeirra. — Morgunblaðið/Ómar
MÓTSPYRNA Haukakvenna var öflug er þær fengu Keflavík í heimsókn í Hafnarfjörðinn í gærkvöldi til að spila annan leikinn í undanúrslitum en sú barátta dugði aðeins fram í þriðja leikhluta.

MÓTSPYRNA Haukakvenna var öflug er þær fengu Keflavík í heimsókn í Hafnarfjörðinn í gærkvöldi til að spila annan leikinn í undanúrslitum en sú barátta dugði aðeins fram í þriðja leikhluta. Þá efldu Keflvíkingar vörnina og héldu Victoriu Crawford frá leiknum, sem sló Hafnfirðinga alveg út af laginu, skoruðu átta stig í röð þegar vörn Hauka steinsvaf á verðinum og unnu að lokum örugglega 96:85. Liðin mætast í þriðja sinn annað kvöld þar sem deildarmeistarar Keflavíkur geta með sigri tryggt sér sæti í úrslitum.

Eftir Stefán Stefánsson

Ljóst var í byrjun að Haukakonur ætluðu að selja sig dýrt og höfðu fulla trú á sigri enda töpuðu þær fyrsta leiknum eftir framlengingu. Spennan var mikil því Keflvíkingar voru ekki tilbúnir til að láta vaða yfir sig svo að leikurinn var í járnum fyrsta leikhlutann enda þurftu dómarar að hafa sig alla við til að hafa tök á honum. Í öðrum leikhluta var greinilega búið að gefa skipun um að Hafnfirðingurinn Victoria skyldi láta til sín taka og það gerði hún svikalaust. Með tíu stigum Hauka í röð, mestu stigalotu í leiknum, tókst þeim að ná naumu forskoti og halda því í hálfleik.

Gestirnir úr Keflavík voru búnir að skipta algerlega um gír þegar þær mættu í þriðja leikhluta og Hafnfirðingar engan veginn viðbúnir því. Vörn gestanna var sterk svo að það tók Hauka tæpar sex mínútur að skora sitt fimmta stig í þriðja leikhluta og skipti þá miklu að Keflvíkingum tókst að halda Victoriu alveg út úr leiknum svo að hún skoraði ekki stig í þriðja leikhluta. Þegar vörn Hauka svaf svo illilega á verðinum síðustu mínútu leikhlutans skoruðu Keflvíkingar átta stig í röð, þar af sex úr þriggja stiga skotum síðustu 15 sekúndurnar svo 12 stigum munaði þegar fjórði leikhluti hófst. Hann varð aldrei spennandi, Keflavík hafði undirtökin og hleypti Haukum aldrei of nálægt sér.

„Tvo þrista í andlitið“

„Við töpuðum leiknum í þriðja leikhluta þegar þær settu tvo þrista framan í okkur þegar við vorum alltof kærulausar og það gengur ekki gegn liði eins og Keflavík,“ sagði Kristrún Sigurjónsdóttir úr Haukum. „Þá kom mikil pressa á okkur um að taka á þeim og stela boltanum en það skilaði þeim bara meira á vítalínuna og þar hittu þær úr sínum skotum. Það var alveg hægt að vinna enda höfum við náð svona langt, næsti leikur gæti samt orðið sá síðasti en við ætlum ekki að láta það gerast. Þá dugar ekkert annað en sigur. Það skiptir ekki máli þó þær hafi unnið okkur oftar í vetur því nú er bara einn leikur tekinn fyrir í einu og sigur í fyrri leikjum segir ekkert um hvort þú vinnir þann næsta. Það verður samt erfiður leikur á miðvikudaginn.“ Kristrún hitti vel í leiknum, úr tveimur af þremur inni í teig og þremur af sex þriggja stiga skotum auk þess að taka 3 fráköst og gefa 5 stoðsendingar. Telma Björk Fjalardóttir tók 12 fráköst og Unnur Tara Jónsdóttir 8 en Victoria var þó atkvæðamest með 31 stig og 8 stoðsendingar. Hún hitti einnig úr öllum tíu vítaskotum sínum en á móti aðeins úr einu af 5 þriggja stiga skotum.

Vörnin leiðir sóknina

Keflvíkingurinn TaKesha Watson var öllu hressari enda átti hún góðan leik. Skoraði 34 stig þegar hún hitti úr fjórum af 12 inni í teig, 6 af 7 þriggja stiga skotum og öllum 8 vítaskotum sínum auk þess að taka 6 fráköst og gefa 10 stoðsendingar. „Við ætluðum að slaka aðeins á í þessum leik því í þeim síðasta vorum við alltof æstar og langaði svo mikið að vinna. Það gekk eftir, vorum yfirvegaðar og spiluðum að okkar hætti. Ég held að við höfum unnið þennan leik á vörninni, hún var sterk í seinni hálfleik og það er þannig að vörnin leiðir alltaf sóknarleikinn. Við náðum þó vörninni ekki í gang fyrr en í síðari hálfleik því við lentum í vandræðum en í síðari hálfleik ákváðum við að berjast betur. Þetta var mikilvægur sigur fyrir okkur því við vissum að þetta yrði erfiður leikur en við ætluðum að berjast allar 40 mínúturnar,“ sagði TaKesha eftir leikinn og komin með hugann við næsta. „Ég er viss um að Haukar muni berjast mikið í næsta leik og gefi okkur ekki neitt svo við verðum að halda einbeitingu því þessi sigur skilar engu í næsta leik. Það verður samt ekkert vandamál fyrir okkur að einbeita okkur í leiknum, við vitum hvað er í húfi, langar í titilinn og hér byrjar baráttan.“ Birna I. Valgarðsdóttir var lengi í gang en lét þá ljós sitt skína. Susanne Biemer gaf 5 stoðsendingar og tók 7 fráköst, eins og Margrét Kara Sturludóttir.