[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Segja má að íslenska krónan hafi verið í frjálsu falli í gær. Í heild lækkaði gengisvísitalan um 6,67% og stóð í 153,6 stigum í lok dags.

Segja má að íslenska krónan hafi verið í frjálsu falli í gær. Í heild lækkaði gengisvísitalan um 6,67% og stóð í 153,6 stigum í lok dags. Er það hæsta gildi sem mælst hefur síðan gengi krónunnar var leyft að fljóta í desember árið 2001, en hærra gildi gengisvísitölunnar þýðir lægra gengi krónunnar gangvart helstu gjaldmiðlum.

Bear Sterns veldur spennu

Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, segir yfirtöku JP Morgan á Bear Sterns um helgina hafa valdið enn meiri spennu og óvissu á markaði sem var viðkvæmur fyrir. Forsvarsmenn Bear Sterns höfðu gefið það út fyrir skömmu að þeir myndu ná að standa af sér þau vandræði sem bankinn var í. „Þetta var því mikið áfall fyrir trúverðugleika alþjóðlega fjármálakerfisins,“ segir Edda Rós.

Hún segir tíðindin hafi haft mikil áhrif á áhættumat fjárfesta. Við ótryggara ástand hafi fjárfestar dregið úr vaxtamunarviðskiptum, eins og kallað er þegar fjárfestar taka fé að láni í landi þar sem vextir eru lágir til að fjárfesta í gjaldmiðli lands þar sem vextir eru háir. Því hafi eftirspurn eftir hávaxtamyntum, líkt og hinni íslensku, minnkað og gengi þeirra lækkað.

Jenið í hæstu hæðum

Edda Rós segir það einnig skipta máli í þessu samhengi að japanska jenið hefur í 13 ár ekki staðið jafn hátt og gær. „Það er sú mynt sem fólk notar í vaxtamunarviðskiptum, þegar fólk skuldsetur sig í jenum og kaupir hávaxtagjaldmiðil. Nú eru þau lán að hækka mikið og til að greiða af þeim þurfa menn að selja hávaxtagjaldmiðla.

Þá eru hálfgerðar stíflur á gjaldeyrisskiptamarkaði, þar sem vaxtamunur við útlönd hefur verið að minnka, en það hefur einnig áhrif til lækkunar krónunnar,“ segir Edda Rós. Hún segir að stífluna megi að hluta rekja til hás skuldatryggingarálags íslensku bankanna.

Seðlabankinn hjálpi til

„Gjaldmiðlar geta verið langt frá jafnvægi sínu í langan tíma í senn, en ég á von á að þessar sveiflur verði bæði upp og niður á næstunni,“ segir Edda Rós. Hún kallar eftir aðgerðum Seðlabanka Íslands til að bæta virkni gjaldeyrisskiptamarkaðarins, en seðlabankar G-10-ríkjanna svokölluðu hafa ráðist í slíkar aðgerðir.

Tvær leiðir eru færar til þess, segir Edda Rós. Í fyrsta lagi geti Seðlabankinn notað hluta gjaldeyrisforðans til að gera gjaldeyrisskiptasamninga við innlendar fjármálastofnanir og þannig greitt fyrir flæði gjaldeyris til og frá landinu. Í öðru lagi geti Seðlabankinn breytt reglum um endurhverf viðskipti í þá átt að viðskiptabankarnir hafi möguleika á að fá erlent fé gegn íslensku veði.

„Forsenda fyrir hvorutveggja er að Seðlabankinn efli gjaldeyrisforðann og helst þarf hann einnig að gera gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka annarra ríkja,“ segir Edda Rós.

Í hnotskurn
Fyrir bjór í Berlín, sem að meðaltali kostar 2,5 evrur, þarf að greiða um 295 íslenskar kr. í dag. Á gengi sama dags í fyrra kostaði hann 220 kr. Ef bara er horft til gengissveiflna þarf því Íslendingur að greiða tæpum 35% meira fyrir bjór í Berlín nú en í fyrra.