ÖKUMAÐUR bíls, sem lenti á bifhjóli á gatnamótum Selvogsbrautar og Óseyrarbrautar í Þorlákshöfn á sunnudag, virti ekki umferðarrétt. Að auki hafði hann verið sviptur ökurétti og er grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna.

ÖKUMAÐUR bíls, sem lenti á bifhjóli á gatnamótum Selvogsbrautar og Óseyrarbrautar í Þorlákshöfn á sunnudag, virti ekki umferðarrétt. Að auki hafði hann verið sviptur ökurétti og er grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna. Málið verður tekið til frekari rannsóknar með tilliti til þessara meintu brota og líkamsmeiðinga af gáleysi, segir á heimasíðu lögreglunnar.

Ökumaður bílsins ók austur Selvogsbraut og inn á Óseyrarbraut í veg fyrir bifhjólið sem var ekið í suður en umferð um Óseyrarbraut hefur forgang gagnvart umferð um Selvogsbraut. Áreksturinn var harður og við hann kastaðist ökumaður bifhjólsins um og yfir 20 metra frá árekstursstaðnum. Maðurinn brotnaði á fæti og hönd og mjaðmagrindarbrotnaði.

Ökumaður fólksbílsins slapp ómeiddur en bíllinn skemmdist mikið og bifhjólið er að öllum líkindum ónýtt.