Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.

Eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

DALAI Lama, hinn andlegi leiðtogi Tíbeta, sætti í gær gagnrýni af hálfu alþjóðlegrar ungliðahreyfingar Tíbeta, TYC, vegna þeirrar afstöðu að kalla ekki eftir því að ríki heims sniðgangi Sumarólympíuleikana í Peking í ágúst.

Frestur kínverskra yfirvalda til tíbeskra mótmælenda að gefa sig fram ellegar eiga á hættu refsingu rann út á miðnætti á staðartíma í gær og er þess því beðið til hvaða ráða Kínastjórn grípur nú.

Mótmælendur í höfuðborginni Lhasa minntust þess í síðustu viku að á mánudag voru 49 ár liðin frá misheppnaðri uppreisn gegn yfirráðum Kínverja og hafa fregnir af mannfalli ýtt undir kröfur um að leikarnir verði sniðgengnir.

Fátt bendir til að orðið verði við þeirri kröfu og má þar nefna að talsmenn Evrópuráðsins sögðu vænlegri leiðir færar til að vinna gagn í þágu mannréttindabaráttu.

Á sama tíma skoraði svissneska Ólympíunefndin á Alþjóða ólympíunefndina, IOC, að senda frá sér yfirlýsingu vegna Tíbets, án þess þó að hvetja til að leikarnir yrðu sniðgengnir í mótmælaskyni.

Þá skoraði Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á Kínastjórn að hefja viðræður við Dalai Lama, á meðan Rússar lögðu áherslu á að málefni Tíbets væru innanhússmál Kínverja.

Leikarnir sýni umbreytinguna

Ólympíuleikunum er ætlað að undirstrika umbreytingu kínversks samfélags úr fjölmennu þróunarríki í tæknivætt efnahagsveldi. Stjörnuarkitektar hafa verið ráðnir til að ljá háhýsaþyrpingum stórborganna yfirbragð auðs og valda og ekkert til sparað við byggingar sem tengjast leikunum.

Sjálfir Sumarólympíuleikarnir eru ekki undanskildir í þessu samhengi og eins og fræðimaðurinn Jennifer Lind bendir á í grein í tímaritinu Atlantic Monthly (í mars 2006) hafa Kínverjar og Rússar tekið höndum saman um að tryggja sínu íþróttafólki sem allra flesta verðlaunapeninga á leikunum.

Bandaríkin voru sigursæl á leikunum í Aþenu 2004 og segir Lind að í ljósi þeirrar útkomu hafi Kínverjar og Rússar sammælst um að sagan endurtæki sig ekki í Peking, með þjálfaraskiptum og sameiginlegri notkun íþróttamannvirkja. Markmið Kínverja sé að hljóta 110 verðlaunapeninga, sjö fleiri en Bandaríkin. Þá gildi að þegar kínverskir og rússneskir íþróttamenn séu ekki að keppa sín á milli skuli heimamenn hvetja Rússana.

Fáir, ef nokkrir, atburðir vekja meiri athygli heimsbyggðarinnar en Ólympíuleikar og ef fram heldur sem horfir verður þetta ekki í fyrsta skipti sem skuggahliðar stjórnmálanna setja blett á leikana. Rifjum upp nokkur dæmi.

Allt frá dögum Adolfs Hitlers

Árið 1936 hugðist einræðisherrann Adolf Hitler nota Ólympíuleikana í Berlín til að sýna fram á mátt og megin Þriðja ríkisins og yfirburði hvíta kynstofnsins. Árið 1964 var Suður-Afríku meinuð þátttaka vegna aðskilnaðarstefnunnar, bann sem var í gildi allt til leikanna í Barcelona árið 1992.

Árið 1972 féllu leikarnir í München algerlega í skuggann af árás palestínskra vígamanna á ísraelska Ólympíuhópinn og átta árum síðar sniðgengu tugir þjóða leikana í Moskvu vegna innrásar Sovetríkjanna í Afganistan. Fjórum árum síðar svöruðu Sovétríkin svo fyrir sig með því að sniðganga Sumarólympíuleikana í Los Angeles.

Í hnotskurn
» Óstaðfestar heimildir herma að hundruð manna hafi týnt lífi í mótmælunum í Lhasa.
» Fregnir hafa borist af mannfalli víðar, þ.m.t. í V-Kína.
» Ólympíuleikarnir í Peking standa yfir frá 8.-24. ágúst.