Gerður Elín Ingvadóttir fæddist í Reykjavík 19. ágúst 1955. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 11. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar eru Guðbjörg Böðvarsdóttir, f. í Bolholti á Rangárvöllum 3. janúar 1932, og Ingvi Þorgeirsson, f. í Hafnarfirði 4. október 1924, d. 3. nóvember 2002. Systkini Elínar eru Guðmundur Karl, f. 23. júlí 1953, og Tryggvi, f. 7. september 1957, kvæntur Önnu Gústafsdóttur. Börn Ingva eru Þorgeir, f. 23. júlí 1944, kvæntur Guðrúnu Þorgeirsdóttur, og Margrét Sigurrós, f. 1. nóvember 1946, gift Kristini Guðmundssyni.

Elín giftist 3. janúar 1992 Jóni Kristjánssyni, f. 23. október 1950. Foreldar hans eru Kristján M. Jónsson, f. á Borgareyri í Mjóafirði 1. mars 1926, d. 2. júlí 1996, og Matthildur Magnúsdóttir, f. á Uppsölum í Eiðaþinghá 31. maí 1922. Börn Elínar eru: 1) Björg, f. 24. október 1971, gift Hrannari Magnússyni, f. 4. júní 1970. Börn þeirra eru Ingvi Már, f. 24. október 1995, Magnús Már, f. 12. apríl 2000, og Hrefna Rós, f. 26. október 2001. 2) Eiríkur Daníel, f. 27. ágúst 1976.

Börn Jóns eru Geir Flóvent, f. 23. janúar 1970, Stefán Magnús, f. 1. desember 1971, og Hildur Björg, f. 22. febrúar 1974. Uppeldisdóttir Jóns er Dagný Gísladóttir, f. 28. apríl 1969.

Elín bjó á Selfossi til þriggja ára aldurs en þá fluttust foreldrar hennar til Njarðvíkur þar sem hún bjó að mestu síðan. Hún vann ýmis verkamanna- og verslunarstörf. Saman áttu þau hjónin annað heimili í Dalnum í Þjórsárdal, þar sem þau dvöldu flestum stundum.

Útför Elínar fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku Elín.

Sárt er vinar að sakna.

Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta.

Húmskuggi féll á brá.

Lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta.

Vinur þó félli frá.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Takk fyrir allt og allt...

Ég elska þig.

Þinn eiginmaður

Jón.

Elsku Elín.

Nú hefur þú kvatt þennan heim og ert komin á annan og betri stað þar sem þú þjáist ekki lengur.

Okkur langar að kveðja þig með þessu ljóði.

Ég leit eina lilju í holti,

hún lifði hjá steinum á mel.

Svo blíð og svo björt og svo auðmjúk

– en blettinn sinn prýddi hún vel.

Ég veit það er úti um engin

mörg önnur sem glitrar og skín.

Ég þræti ekki um litinn né ljómann

en liljan í holtinu er mín!

Þessi lilja er mín lifandi trú,

þessi lilja er mín lifandi trú.

Hún er ljós mitt og von mín og yndi.

Þessi lilja er mín lifandi trú!

Og þó að í vindinum visni,

á völlum og engjum hvert blóm.

Og haustvindar blási um heiðar,

með hörðum og deyðandi róm.

Og veturinn komi með kulda

og klaka og hríðar og snjó.

Hún lifir í hug mér sú lilja

og líf hennar veitir mér fró.

(Þorsteinn Gíslason.)

Elsku Jón, Bagga og aðrir aðstandendur, megi góður guð styrkja ykkur í sorg ykkar.

Kveðja,

Hrólfur og Ragna, Dalbúar.

Elsku systir, hafðu þökk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Við munum ávallt minnast þín og sakna. Guð geymi þig og blessuð sé minning þín. Við biðjum Guð um að styrkja ástvini þína.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Tryggvi og fjölskylda.

Elsku vinkona.

Nú hefur þú kvatt okkur og langar okkur til að kveðja þig með þessum orðum.

Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta. Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið.

En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

(Kahlil Gibran)

Elsku Jón, Bagga, Björg, Eiríkur og aðrir aðstandendur, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur og megi góður guð styrkja ykkur í sorginni.

Þín er sárt saknað, elsku Elín,

Einar og Þórdís (Dísa).

Elskuleg vinkona mín er kvödd í dag, og minningarnar frá æskuárum okkar hrannast upp. Fyrstu minningarnar eru prakkaraskapur á Selfossi sem við geymum í poka minninganna. Eftir að þú fluttir í Njarðvíkina voru samverustundirnar ekki mjög margar en alltaf þegar við hittumst var líf og fjör í kringum okkur og hélst það fram á síðasta dag. Alltaf gátum við fundið spaugilegu hliðarnar á öllu sem henti okkur, sama hvað það var, við vorum nú ekki að taka hlutina alltof alvarlega. Mig langar til að kveðja þig, elsku Elín mín, með þessu ljóði.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Við Torfi og strákarnir sendum mömmu þinni Jóni, börnum þínum og barnabörnum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þín vinkona

Guðrún.