Haukur Ingason
Haukur Ingason
Haukur Ingason fjallar um fram komið frumvarp til lyfjalaga: "...afsláttur sem veittur er af lyfjum sem Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í að greiða mun að mestu eða öllu leyti fara til TR en ekki til sjúklinganna eins og nú er raunin."

HEILBRIGÐISRÁÐHERRA hefur lagt fram frumvarp til lyfjalaga þar sem gert er ráð fyrir að ríkið hirði til sín afslátt sjúklinga af lyfjum sem Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í að greiða. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að póstverslun með lyf verði heimiluð hér á landi.

Afsláttur til TR í stað sjúklinga

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þau apótek sem vilja gefa afslátt af lyfjum tilkynni afsláttinn fyrirfram til Lyfjaverðsnefndar sem birtir síðan afsláttarverðið í næstu Lyfjaverðskrá.

Greiðslufyrirkomulag sjúklinga á lyfjum er þannig að þetta ákvæði mun leiða til þess að afsláttur sem veittur er af lyfjum sem Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í að greiða mun að mestu eða öllu leyti fara til TR en ekki til sjúklinganna eins og nú er raunin.

Póstverslun með lyf

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að póstverslun með lyf verði heimiluð, en slík verslun hefur verið óheimil hingað til, þó svo að póstsendingar á lyfjum hafi verið heimilar.

Sjúklingar sem búa fjarri apótekum sem selja lyf með miklum afslætti hugsa því eflaust gott til glóðarinnar, en því miður hefur framangreint ákvæði varðandi afsláttinn til TR þau áhrif að sjúklingar koma til með að hafa lítinn hag af væntanlegri póstverslun.

Gildistaka væntanleg 1. okt.

Framangreint frumvarp til laga á að taka gildi 1. október nk. Fram að þeim tíma geta sjúklingar notið fulls afsláttar af öllum lyfjum hjá þeim apótekum sem hann bjóða, hvort sem sjúklingar eða umboðsmenn þeirra fara í viðkomandi apótek með lyfseðla eða láta lækna senda lyfseðla í viðkomandi apótek og hvort sem lyfin eru sótt eða send með heimsendingarþjónustu eða póstsendingum.

Höfundur er apótekari og eigandi Garðs Apóteks í Reykjavík.

Höf.: Haukur Ingason fjallar um fram komið frumvarp til lyfjalaga