Jón Gröndal fæddist í Reykjavík 1949. Hann lauk B.A. í þjóðfélagsfræði frá HÍ 1974 og kennsluréttindum frá KHÍ 1977. Jón starfaði í Þingholtsskóla í Kópavogi 1970 til 75, fluttist síðar til Grindavíkur þar sem hann kenndi 1976-2002.

Jón Gröndal fæddist í Reykjavík 1949. Hann lauk B.A. í þjóðfélagsfræði frá HÍ 1974 og kennsluréttindum frá KHÍ 1977. Jón starfaði í Þingholtsskóla í Kópavogi 1970 til 75, fluttist síðar til Grindavíkur þar sem hann kenndi 1976-2002. Jón er nú kennari við Ölduselsskóla í Reykjavík. Hann hefur starfað fyrir Lions á Íslandi frá 1976 og er nú kynningarstjóri. Jón er kvæntur Dórótheu Emilsdóttur og eiga þau þrjú börn og fjögur barnabörn.

Lionshreyfingin er stærsta alþjóðlega þjónustuhreyfing heims og starfar í yfir 210 löndum. Jón Gröndal er kynningarstjóri Lions á Íslandi, og segir frá starfinu: „Lions hefur starfað á Íslandi frá 1951 og eru hér nú 89 Lions-klúbbar, þar sem um 2.300 konur og karlar vinna saman að ýmsum verkefnum til góðs, jafnt fyrir sína heimabyggð og fyrir fólk í neyð í fjarlægum heimshlutum,“ segir Jón en árlega styrkja Lionsklúbbarnir á Íslandi stofnanir og einstaklinga um 60-80 milljónir króna, til viðbótar við þjónustuverkefni í heimabyggðum. „Meðal sameiginlegra verkefna Lionshreyfingarinnar á Íslandi má nefna vímuvarnir, unglingaskipti og alþjóðleg hjálparverkefni á borð við SightFirst sem miðar að því að lækna og fyrirbyggja blindu á vanþróuðum svæðum.“

Starf Lionsklúbbanna snýst ekki aðeins um góðgerðarstarf, heldur eru klúbbarnir kjörinn vettvangur til að eignast nýja félaga og vini, og segir Jón starfið bæði eflandi og þroskandi: „Lionsklúbbarnir eru heppilegur og áhrifaríkur vettvangur fyrir fólk sem vill í sameiningu vinna að góðum málefnum. Við fylgjumst með þörfum samfélagsins, með sérstakri áherslu á líknar-, mannúðar- og menningarmál. Við leitum leiða til að fullnægja þessum þörfum, ýmist með eigin átaki eða í samvinnu við aðra aðila.“

Stærsta sameiginlega verkefni Lionshreyfingarinnar á Íslandi er sala rauðu fjaðrarinnar. „Á tveggja ára fresti efnum við til söfnunarátaks um allt land og er söfnunarféð notað til að styrkja við valið verkefni hér á landi,“ útskýrir Jón. „Meðal verkefna sem notið hafa góðs af sölu rauðu fjaðrarinnar má nefna gigtsjúkdómarannsóknir, og byggingu vistheimilis fyrir fjölfötluð börn að Reykjalundi. Blásið verður til söfnunar í ár, dagana 3. til 6. apríl, í samstarfi við Blindrafélagið og mun ágóðinn af söfnuninni m.a. verða notaður til kaupa á leiðsöguhundum fyrir blinda.“

Þeir sem vilja kynna sér nánar starf Lions á Íslandi og jafnvel leggja hönd á plóg við fjársöfnunina í apríl geta fundið upplýsingar á síðunni www.lions.is eða með tölvupósti á lions@lions.is