Gert upp Hafnarstræti 98, Hótel Akureyri, til vinstri, en París, húsið númer 96, til hægri. Það er nýuppgert og þar er m.a. kaffihúsið Bláa kannan.
Gert upp Hafnarstræti 98, Hótel Akureyri, til vinstri, en París, húsið númer 96, til hægri. Það er nýuppgert og þar er m.a. kaffihúsið Bláa kannan. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Eftir Skapta Hallgrímsson skapti@mbl.is KEA hefur, ásamt fleiri fjárfestum, fest kaup á Hafnarstræti 98 – gamla Hótel Akureyri í göngugötunni og verður húsið gert upp.

Eftir Skapta Hallgrímsson

skapti@mbl.is

KEA hefur, ásamt fleiri fjárfestum, fest kaup á Hafnarstræti 98 – gamla Hótel Akureyri í göngugötunni og verður húsið gert upp. Fyrri eigendur hússins höfðu áformað niðurrif á því og ætluðu að byggja nýtt á lóðinni, en menntamálaráðherra friðaði húsið í haust að tillögu húsafriðunarnefndar.

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, segir markmiðið að ráðast strax í endurbætur á húsinu og koma því í upphaflegt horf samhliða því sem möguleikar á viðbyggingu verða skoðaðir. Fyrri eigendur höfðu í hyggju að byggja mun stærra hús á lóðinni.

Haft er eftir Halldóri á heimasíðu KEA að fyrirhugað sé að húsnæðið verði innréttað sem skrifstofuhúsnæði. „Þetta er bæði fjárfestingaverkefni og samfélagslegt verkefni að okkar mati. Húsið hefur verið óhrjálegt allt of lengi,“ sagði Hannes Karlsson, formaður stjórnar KEA við Morgunblaðið í gær. Hann segir að byrjað verði á því að fara yfir innviði hússins og framkvæmdir hefjist væntanlega um miðjan apríl.

KEA er nú til húsa við Glerárgötu en höfuðstöðvar félagsins voru lengi steinsnar frá gamla Hótel Akureyri, á horni Hafnarstrætis og Kaupvangsstrætis. Spurður segir Hannes ekki á döfinni að KEA flytji aftur í miðbæinn eftir að Hafnarstræti 98 verður gert upp.

Hannes segir að hugmyndin um að kaupa húsið og gera það upp hafi kviknað fyrir töluvert löngu síðan hjá KEA. „Það sem skiptir máli er að götumyndin haldi sér. Þegar hefur verið gert verulegt átak í næstu húsum og við ætlum okkur að gera þetta hús glæsilegt líka.“

Húsið Hafnarstræti 98 er engin bæjarprýði en ekki er allt sem sýnist, að mati sérfræðings. Hólmsteinn Snædal húsasmíðameistari skoðaði húsið í haust og sagði það í mjög góðu ástandi. „Það er gjörsamlega heilt, ekki fúna spýtu að finna,“ sagði hann við Morgunblaðið þá og áréttaði að það væri fjarri öllum sannleika að húsið væri ónýtt eins og haldið hefði verið fram.

Hólmsteinn vann að endurbyggingu húsanna tveggja sunnan við Hótel Akureyri, París og Hamborg, síðustu ár með Sigmundi Einarssyni, eiganda þeirra húsa. „Það væri ekkert því til fyrirstöðu að gera Hótel Akureyri jafn glæsilegt. Ég er reyndar viss um að það yrði minna verk en með Hamborg og okkur þótti það nú ekki mikið. Það þarf að skipta um glugga, þakjárn og slíkt en ekki einu sinni um utanhússklæðningu nema menn vilji,“ sagði Hólmsteinn í haust.

Í hnotskurn
» Húsin eru öll talin hafa mikið gildi fyrir umhverfi sitt, ýmist sem hornhús eða áberandi kennileiti í miðbæ Akureyrar, sagði í tilkynningu frá ráðherra í haust þegar tilkynnt var að ytra byrði húsanna þriggja við Hafnarstræti hefði verið friðað.