Rómverji Cy Twombly sýnir nú nýjustu málverkin í Róm.
Rómverji Cy Twombly sýnir nú nýjustu málverkin í Róm.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í HUGA margra tengist Ítalía samtímamyndlist sterkum böndum. Einkum er það fyrir tilstilli Feneyjatvíæringsins.

Í HUGA margra tengist Ítalía samtímamyndlist sterkum böndum. Einkum er það fyrir tilstilli Feneyjatvíæringsins. Staðreyndin er hinsvegar sú að stjórnvöld hafa ætíð verið hrifnari af fornminjum og hafa ekki verið fáanleg til að leggja áherslu á samtímalistasöfn; hugmyndir um að halda til að mynda einhverju eftir af því merkasta á Feneyjatvíæringnum hafa ætíð runnið út í sandinn. Þá hafa þarlendir listunnendur iðulega þurft að halda til annarra landa til að sjá verk eftir kunnustu ítölsku listamennina.

„Hér er kerfi aftan úr miðöldum,“ segir sýningastjórinn Germano Celant í samtali við The New York Tim es . „Hver stofnun er verk eins manns, annars gerist ekki neitt. Það er engin opinber strúktúr eða stuðningskerfi við listirnar.“

Nú er mikið rætt um hvort breytinga sé að vænta, og hvort stjórnvöld séu að átta sig á því að listin laði að fjármagn. Larry Gagosian hefur opnað gallerí í Róm, og fyrsti sýnandinn var Cy Twombly – sem hefur búið í borginni um árabil.

Verið er að byggja nýtt samtímasafn í Róm, kallað Maxxi, og fyrir skemmstu opnaði annað í Bologna. Prada-stofnunin hefur keypt sýningarrými í Mílanó sem Rem Koolhaas mun hanna. Í Mílanó er líka Hangar Bicocca, fyrrum verksmiðja helguð risavöxnum innsetningum. Fólk flykkist þar að til að skoða steinsteyputurna Anselm Kiefers.

Fleira er á döfinni. Yfirvöld í Feneyjum hafa til að mynda ákveðið að afhenda Francois Pinault, milljarðamæringnum sem þegar sýnir verk úr sinni eigu í Palaozzo Grassi, gamla tollhúsið.