Reiðubúin Sundfólkið Jakob J. Sveinsson, Sigrún Brá Sverrisdóttir og Ragnheiður Ragnarsdóttir stefna öll á að bæta Íslandsmet sín á Evrópumótinu í Eindhoven sem hefst í dag. Örn Arnarson verður einnig á meðal keppenda.
Reiðubúin Sundfólkið Jakob J. Sveinsson, Sigrún Brá Sverrisdóttir og Ragnheiður Ragnarsdóttir stefna öll á að bæta Íslandsmet sín á Evrópumótinu í Eindhoven sem hefst í dag. Örn Arnarson verður einnig á meðal keppenda. — Morgunblaðið/Frikki
„MÉR líst vel á mótið framundan.

„MÉR líst vel á mótið framundan. Ég er í hörkugóðu formi og er þar með bjartsýnn á góðan árangur,“ sagði Örn Arnarson, sundmaður í samtali við Morgunblaðið en hann hefur keppni á Evrópumeistaramótinu í sundi í 50 m laug í Eindhoven í Hollandi í dag með þátttöku í 50 m flugsundi og 100 m baksundi. Einnig keppir Jakob Jóhann Sveinsson í 100 m bringusundi á mótinu í dag en þeir félagar ríða á vaðið af íslenska hópnum sem einnig telur Ragnheiði Ragnarsdóttur og Sigrúnu Brá Sverrisdóttur.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Ragnheiður og Sigrún Brá verða í eldlínunni á morgun þegar þær spreyta sig báðar í 100 m skriðsundi. Auk þess keppir Ragnheiður í 50 m skriðsundi, Sigrún Brá í 200 og 400 m skriðsundi og 200 m flugsundi, Jakob Jóhann í 50, 100 og 200 m bringusundi og Örn í 50 og 100 m baksundi, 50 og 100 m skriðsundi og í 50 m flugsundi. Mótinu lýkur næsta mánudag, öðrum degi páska.

Örn segist í fínu formi og vonast til þess að komast í úrslit í baksundsgreinunum en reikna megi með að mótið verið mjög sterkt að þessu sinni þar sem margir sundmenn séu að reyna að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Peking. „Miðað við hvernig menn hafa verið að synda síðustu mánuði reikna ég með mjög sterku móti og bý mig undir afar harða keppni í mínum greinum. Sennilega mun blessað dagsformið ráða miklu þegar á hólminn verður komið í jafnri keppni,“ sagði Örn.

Örn er skráður með níunda besta tíma keppenda í 50 m baksundi og þann 17. besta í 100 m baksundi.

Baksundið verður aðalmálið hjá Erni

„Skráningartími minn á mótið í 100 metra baksundi er frá Smáþjóðaleikunum í fyrra. Frá þeim hefur ýmislegt breyst til batnaðar hjá mér í baksundinu. Ég reikna með að bæta tímana í 50 og 100 metra baksundinu og stefni inn í átta manna úrslit. Næst á eftir baksundinu ætla ég að leggja áherslu á 100 metra skriðsund. Ég er spenntur að sjá hvernig gengur í skriðsundinu og segja má að bæði 50 og 100 metra skriðsundið á þessu móti verði prófsteinn á það hvort ég syndi aðra hvora greinina á Ólympíuleikunum í sumar eða hvort ég læt baksundið duga. Ég ætla mér ekki í 100 metra skriðsund á Ólympíuleikunum í sumar nema ég sjái fram á að eiga möguleika á sæti í úrslitum. Til þess að svo megi verða þarf ég að synda mun hraðar en ég geri nú um stundir.

Baksundið verður númer eitt hjá mér á Ólympíuleikunum í sumar og síðan verður annaðhvort skriðsund eða flugsund næst á eftir. Það skýrist að Evrópumótinu loknu á hvora greinina ég veðja á en líklega er það of mikið að ætla sér að keppa í þremur mismunandi sundgreinum á einum og sömu Ólympíuleikum.

En ég mæti bjartsýnn til leiks á EM í Eindhoven. Hef ekki ástæðu til annars miðað við árangur minn upp á síðkastið,“ segir Örn sem hefur síðustu mánuði lagt mikla vinnu í viðbragðið í baksundinu og tókst reyndar svo vel upp á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug í desember sl. að um tíma var talið að hann hefði þjófstartað. Eftir talsverða skoðun dómara kom í ljós að svo var ekki. „Ég er mjög spenntur að sjá hvernig viðbragðið reynist í 50 metra baksundinu. Eins og mér tókst upp á mótinu í Lúxemborg fyrir nokkrum vikum náði ég svo góðu viðbragði að andstæðingarnir voru í mestu vandræðum við að ná mér. Spurningin er hvað gerist í Eindhoven,“ segir Örn bjartsýnn.

Jakob Jóhann er þrautreyndur

„Ég er orðinn nokkuð sjóaður af þátttöku í stórmótum,“ sagði Jakob Jóhann sundmaður sem hefur tekið þátt í flestum stórmótum sundsins í nærri tíu ár. „Mínar aðalgreinar á mótinu verða eins og vant er 100 og 200 metra bringusund, 50 metra bringusundið er aukagrein. Ég stend vel að vígi fyrir þetta mót eftir að hafa æft mjög vel og aldrei synt eins mikið og um jólin. Síðan þá hefur mikill tími farið í að bæta tæknina og þeirri vinnu verður haldið áfram fram að Ólympíuleikunum í ágúst,“ segir Jakob sem telur sig geta komist í úrslit í einhverri sinna greina. „Það kemur betur í ljós þegar komið verður í undanúrslitin hvort ég get náð lengra,“ segi Jakob Jóhann Sveinsson.

Ragnheiður stefnir á að bæta eigin Íslandsmet

„Stefnan er sett á að endurtaka leikinn frá því á ólympíuárinu fyrir fjórum árum, þá tókst mér að komast í undanúrslit í 100 metra skriðsundi á Evrópumótinu sem haldið var á sama ári og Ólympíuleikarnir,“ segir Ragnheiður Ragnarsdóttir.

„Það líða fjórir dagar á milli keppnisgreina hjá mér á mótinu. Þar af leiðandi mun mikið reyna á að halda einbeitingu til þess að standa sig sem best í báðum greinum. Stefnan er sett á að komast í undanúrslit í annarri hvorri greininni en helst báðum,“ segir Ragnheiður sem tekur þátt í 50 og 100 m skriðsundi á Evrópumótinu.

„Sé tekið mið af mínum besta árangri í báðum greinum á ég raunhæfa möguleika á undanúrslitasæti, en ef mér tekst að bæta mig ætti ég ekki að vera langt frá sæti í úrslitum.“

Ragnheiður segir útlitið vera gott hjá sér eftir góðar æfingar upp á síðkastið. „Ég vil halda áfram að bæta mig áður en kemur að Ólympíuleikunum í sumar,“ segir Ragnheiður sem ásamt Jakobi Jóhanni og Erni hefur tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Peking í ágúst.

Sigrún Brá í fyrsta sinn á meðal þeirra bestu

„Ég er mjög spennt fyrir mótinu enda verður þetta fyrsta Evrópumeistaramótið í fullorðinsflokki sem ég tek þátt,“ segir Sigrún Brá Sverrisdóttir sem tekur þátt í fjórum greinum á Evrópumótinu, 100, 200 og 400 m skriðsundi og 200 m flugsundi. Sigrún Brá verður yngsti íslenski keppandinn á mótinu þessu sinni en hún heldur upp á 18. afmælisdag sinn hinn 23. mars og svo vill til að þá verður frídagur hjá henni í mótinu.

„Ég hef ákveðið markmið í huga á mótinu sem ég vil halda fyrir sjálfa mig en því er ekki að leyna að ég geri mér vonir um að geta bætt minn fyrri árangur í sem flestum greinum,“ segir þessi unga og efnilega sundkona sem er 1,5 sekúndum frá lágmarki til þátttöku í Ólympíuleikunum í 200 m skriðsundi. „Ég ætla að reyna við lágmarkið fyrir Ólympíuleikanna á EM í Eindhoven.

Ég hef getað æft eins og kostur er fyrir þetta mót og mæti því full eftirvæntingar og bjartsýni til þess,“ segir Sigrún Brá Sverrisdóttir.