Óeirðir Bíll í eigu SÞ brennur eftir átökin í Kosovska Mitrovica í Kosovo í gær.
Óeirðir Bíll í eigu SÞ brennur eftir átökin í Kosovska Mitrovica í Kosovo í gær. — Reuters
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is ATLANTSHAFSBANDALAGIÐ mun bregðast af festu við frekari óeirðum í Kosovo, að sögn talsmanns NATO, James Appathurai, í gær.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

ATLANTSHAFSBANDALAGIÐ mun bregðast af festu við frekari óeirðum í Kosovo, að sögn talsmanns NATO, James Appathurai, í gær. Nær 30 lögreglumenn og friðargæsluliðar bandalagsins, sem annast öryggisgæslu í Kosovo fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna, særðust snemma í gærmorgun er þeir reyndu að leggja á ný undir sig dómshús SÞ í borginni Kosovska Mitrovica. Lentu þeir í átökum við menn úr serbneska minnihlutanum í norðurhluta borgarinnar er beittu m.a. skotvopnum.

Boris Tadic, forseti Serbíu, hvatti í gær leiðtoga Serba í Kosovo til stillingar en bað einnig liðsmenn NATO um að beita „ekki valdi“ til að ná dómshúsinu úr höndum Serba. Slíkar aðgerðir væru óþarflega harkalegar og gætu ýtt undir átök í héraðinu öllu. Samningaviðræður við Serbana sem lagt höfðu dómshúsið undir sig báru engan árangur um helgina. Mitrovica Kosovska er að hálfu byggð albönskumælandi fólki og að hálfu serbneskumælandi.

Liðsmenn NATO, sem flestir voru pólskir, urðu að hafa sig á brott frá serbneska hluta borgarinnar í gær eftir að beitt hafði verið táragasi gegn Serbunum sem m.a. kveiktu í nokkrum bílum, merktum SÞ. Serbarnir lögðu dómshúsið undir sig á föstudag. Þeir krefjast þess að stofnaður verði sérstakur dómstóll fyrir Serba í borginni.

Minnst 80 af óeirðaseggjunum særðust í átökunum og 53 voru handteknir, að sögn lögreglunnar í Kosovo. Fyrir réttum fjórum árum urðu mannskæðar óeirðir í Mitrovica Kosovska, Albanar andmæltu þá veru Serba í borginni og kröfðust sjálfstæðis Kosovo.

Flest vestræn ríki hafa viðurkennt sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo frá 17. febrúar, sem Serbar hafna með öllu og segja vera brot á alþjóðalögum. Njóta þeir stuðnings Rússa í þeirri deilu og hvöttu Rússar til þess um helgina að aftur yrðu hafnar samningaviðræður um stöðu Kosovo. Margra ára viðræður af því tagi báru ekki árangur þar sem albanski meirihlutinn í héraðinu vildi með engu móti samþykkja að héraðið yrði áfram hluti Serbíu. Grimmilegar ofsóknir Serba gegn Albönum hefðu útilokað slíka lausn.

Í hnotskurn
» Um 17.000 friðargæsluliðar á vegum NATO eru í Kosovo. Héraðinu var stýrt af fulltrúum SÞ frá 1999 eftir að stríðinu gegn herjum Serba í héraðinu lauk en það var áfram formlega hluti Serbíu. Nýlega lýsti Kosovo yfir fullu sjálfstæði.
» Um 10% hinna tveggja milljóna íbúa Kosovo eru Serbar, hinir eru flestir Albanar og kröfðust hinir síðarnefndu að stjórnarfarslegu tengslin við Serbíu yrðu slitin. Serbar líta margir á Kosovo sem heilaga jörð en þar eru ýmsir merkir staðir úr sögu þjóðarinnar.