Nicolas Sarkozy
Nicolas Sarkozy
NIÐURSTÖÐUR sveitarstjórnarkosninganna í Frakklandi um helgina eru mikið áfall fyrir Nicolas Sarkozy forseta og miðju-hægrimenn hans.

NIÐURSTÖÐUR sveitarstjórnarkosninganna í Frakklandi um helgina eru mikið áfall fyrir Nicolas Sarkozy forseta og miðju-hægrimenn hans. Er búið var að telja megnið af atkvæðunum var ljóst að Sósíalistaflokkurinn hafði náð völdum í borgunum Toulouse, Caen, Strassborg, Reims og Amiens, einnig hélt hann París og Lyon.

Miðju-hægriflokki forsetans, UMP, var þó nokkur huggun í því að Marseilles er enn á hans valdi þótt hart væri að flokknum sótt í borginni. Og jafnframt er bent á að munurinn á helstu valdablokkunum var lítill í prósentum, vinstrimenn eru nú með samanlagt 48,7% atkvæða en miðju-hægrimenn 47,6%.

Vinsældir Sarkozys hafa hrapað eftir sigurinn í forsetakosningunum í maí. Er nú talið að eftir að hafa misst mikilvæga valdakjarna eins og áðurnefndar borgir muni honum ganga treglega að hrinda í framkvæmd ýmsum róttækum breytingum sem hann hefur boðað.