GENGI bréfa FL Group lækkaði mest allra úrvalsvísitölufélaga í kauphöllinni í gær, eða um 13,2%. Endaði gengið í 7,23. Viðskipti með bréfin í gær voru ekki mikil, eða fyrir um 270 milljónir króna.

GENGI bréfa FL Group lækkaði mest allra úrvalsvísitölufélaga í kauphöllinni í gær, eða um 13,2%. Endaði gengið í 7,23. Viðskipti með bréfin í gær voru ekki mikil, eða fyrir um 270 milljónir króna.

Frá því fyrir áramót hafa bréf FL Group lækkað um 50% og markaðsvirði félagsins rýrnað um 73 milljarða króna, er nú um 72 milljarðar. Sterkur orðrómur hefur verið um að félagið verði tekið af markaði á næstunni en það hefur ekki farið varhluta af óróanum á fjármálamarkaði.

„Ekki rætt um afskráningu“

Vegna umfjöllunar fjölmiðla um orðróminn gaf stjórn FL Group út stutta yfirlýsingu síðdegis í gær, undirritaða af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni stjórnarformanni. Þar segir að engar umræður hafi farið fram í stjórninni um afskráningu félagsins.

Fyrr um daginn hafði á vef Viðskiptablaðsins m.a. verið vitnað í ónafngreindan stjórnarmann FL Group sem sagði að það væri „eina vitið“ að taka félagið af markaði.

Baugur er stærsti hluthafi FL Group með um 36,5% hlut. Markaðsvirði þess hlutar hefur frá áramótum rýrnað um 26,6 milljarða króna.