Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur falið tveimur fyrrverandi hæstaréttardómurum, Guðrúnu Erlendsdóttur og Haraldi Henryssyni, að fara yfir atburðina í Kjúklingastræti í Kabúl, höfuðborg Afganistans, árið 2004 þegar gerð var...

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur falið tveimur fyrrverandi hæstaréttardómurum, Guðrúnu Erlendsdóttur og Haraldi Henryssyni, að fara yfir atburðina í Kjúklingastræti í Kabúl, höfuðborg Afganistans, árið 2004 þegar gerð var sprengjuárás á íslenska friðargæsluliða. Hún greindi frá þessu á Alþingi í gær í svari við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri grænna, um það hvort fjölskyldum fórnarlamba árásarinnar hefðu verið greiddar bætur. Tveir létu lífið í árásinni, 13 ára gömul afgönsk stúlka og 23 bandarísk kona. Þær dóu vegna þess að Íslendingar fóru í teppaleiðangur inn í Kabúl og virtu ekki öryggisreglur. Að auki særðust þrír íslenskir friðargæslumenn sem biðu á meðan yfirmaður þeirra skoðaði teppi.

Þetta mál hefur aldrei verið rætt til þrautar og skipan dómaranna til að fara ofan í saumana á því verður vonandi til að varpa á það skýrara ljósi hvað gerðist þennan dag. Það er hins vegar ekki þeirra að taka um það ákvörðun hvort rétt sé að fórnarlömbunum verði greiddar bætur. Það er pólitísk ákvörðun sem hvorki er hægt að klæða í búning álits né greinargerðar.

Ingibjörg Sólrún sagði í gær að enn væri margt óljóst varðandi árásina í huga manna hér á landi og í heimsókn sinni til Afganistans hefði hún komist að því að þar teldist það enn óútkljáð.

Hún tók fram að þeir, sem stóðu fyrir tilræðinu í Kjúklingastræti, bæru fulla ábyrgð á því og ekki væri hægt að vísa þeirri ábyrgð á aðra. Hún sagði einnig að ekki hefðu verið taldar forsendur til að greiða skaðabætur. Sagði Ingibjörg Sólrún að hún myndi kynna utanríkismálanefnd Alþingis álitiðþegar það lægi fyrir, sem væntanlega yrði í sumar, og bætti við: „Það er von mín að með þessu getum við endanlega metið atvikin, séð hvort ástæða er til breytts verklags eða aðgerða af einhverju tagi.“

Harmleikurinn í Kabúl sýndi svo ekki verður um villst að Íslendingar eiga ekki erindi á ófriðarsvæði. Í árásinni létust tveir einstaklingar af þeirri ástæðu einni að íslenskir friðargæsluliðar voru þar sem þeir hefðu ekki átt að vera og mynduðu skotmark fyrir hryðjuverkamenn. Það er því ekki hægt að vísa ábyrgð á þessu máli frá Íslendingum.

Eins og fram kom í svarinu við fyrirspurn Árna Þórs hefur íslenska ríkið ekki greitt bætur vegna fórnarlambanna tveggja sem létu lífið í tilræðinu. Það er ugglaust hægt að verja það með því að vísa í fordæmi að Íslendingar séu ekki skuldbundnir til að greiða fórnarlömbunum bætur. Ætli íslensk stjórnvöld hins vegar að sýna sanngirni og reisn í málinu munu þau reiða fram bætur til fjölskyldu litlu stúlkunnar og bandarísku blaðakonunnar sem létu lífið í árásinni. Það hefði átt að gerast strax en betra er seint en aldrei.