Stundum er gests augað svo ljómandi glöggt.

Stundum er gests augað svo ljómandi glöggt. Í íslenzkum stjórnmálakreðsum hefur verið talað á þann veg að flokkarnir hafi gert rækilega hreint fyrir dyrum í fjármálum sínum er samstaða náðist á Alþingi um lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, sem voru samþykkt í árslok 2006. Í fyrradag var gerð opinber skýrsla GRECO, samtaka ríkja í Evrópuráðinu gegn spillingu, um fjármál íslenzkra stjórnmálaflokka. Þar er nýja löggjöfin reyndar sögð mikið framfaraskref, en matsmenn GRECO finna engu að síður á henni verulega ágalla, sem þeir leggja til að verði bætt úr.

Ein veigamesta ábendingin varðar þann greinarmun, sem gerður er á framlögum til stjórnmálaflokka og frambjóðenda eftir því hvort um fyrirtæki eða einstakling er að ræða. Eingöngu er nú gerð krafa um að fyrirtæki, sem styrkja flokkana, séu nafngreind. Rökin fyrir þessu voru að verið væri að vernda einkalíf einstaklinga, sem styrkja stjórnmálaflokka.

GRECO bendir á það, sem virðist liggja í augum uppi, að almannahagsmunir af því að allt sé uppi á borðinu hljóti að vega þyngra. Þrjú hundruð þúsund krónur séu heilmiklir peningar og núverandi löggjöf bjóði upp á að fyrirtæki fari bæði framhjá ákvæðunum um hámarksframlög og um nafngreiningu með því að láta stjórnmálamenn hafa mörg framlög í nafni starfsmanna sinna. Þess vegna eigi að nafngreina alla, sem styrkja stjórnmálamenn um upphæð yfir ákveðnu marki.

Önnur veigamikil tillaga GRECO er að sömu reglur um gegnsæja fjármögnun kosningabaráttu verði látnar gilda um frambjóðendur til embættis forseta Íslands og um þá, sem bjóða sig fram til þings og sveitarstjórna. Þetta er sömuleiðis alveg sjálfsagt. Hlutverk forsetans hefur breytzt og hann er t.d. farinn að beita sér í þágu viðskiptahagsmuna fyrirtækja. Er þá ekki alveg sjálfsagt að almenningur fái að vita hverjir fjármagna forsetaframboð?

Löggjöfin um gegnsæja fjármögnun stjórnmálabaráttu er nauðsynleg út frá almannahagsmunum en bezt er hún fyrir stjórnmálamennina sjálfa. Ef allt er uppi á borðinu, verða þeir ekki grunaðir um að ganga erinda þeirra, sem styrktu þá til að ná kjöri.

Í kjölfar umræðna um styrki verktaka til borgarfulltrúa, sem véla um skipulagsmál og lóðaúthlutanir, spurðu 24 stundir framboð og borgarfulltrúa í Reykjavík hvort þeir hefðu þegið styrki af verktakafyrirtækjum. Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og prófkjör vegna þeirra voru nýju lögin ekki gengin í gildi. Vandræðagangurinn í sumum svörunum, sem fram koma í blaðinu í dag, sýnir vel hvað það mun koma stjórnmálamönnum vel að gegnsæið nái alveg til botns.