,,ÞETTA var rosalega erfiður leikur sem stóð yfir í um einn klukktíma. Mér tókst að hafa hana í lokin en ég var eiginlega alveg búin.

,,ÞETTA var rosalega erfiður leikur sem stóð yfir í um einn klukktíma. Mér tókst að hafa hana í lokin en ég var eiginlega alveg búin. Ég tók á öllu sem ég átti átti og sem betur fer erum við mörg hér frá Íslandi því ég fékk mjög góða hvatningu sem hjálpaði mér mikið. Það er gott upp á sjálfstraustið að vinna mótherja sem er fyrir ofan mann á heimslistanum,“ sagði Ragna Ingólfsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í badminton, við Morgunblaðið eftir frábæran sigur hennar á Agnese Allegrini frá Ítalíu í 1. umferð í einliðaleik á Evrópumótinu í badminton sem nú stendur yfir í Herning í Danmörku.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

Ragna tapaði fyrstu lotunni, 19:21, en vann þær tvær næstu, 21:16 og 21:15.

Ragna hefur glímt við meiðsli í hnénu en hún sagðist ekki hafa fundið fyrir þeim í gær að neinu ráði.

,,Hnéð hélt sem betur fer alveg en ég er aðeins hægari og reyni að passa mig í hreyfingunum,“ sagði Ragna.

Allegrini er 18 sætum fyrir ofan Rögnu á heimslista Alþjóðabadmintonsambandsins en sú ítalska er í 41. sætinu en Ragna í því 59. Því var þetta mikilvægur sigur hjá Rögnu í baráttu hennar um að vinna sér keppniréttinn á Ólympíuleikunum í sumar.

Þær Ragna og Allegrini mættust á Evrópumóti landsliða í Hollandi í febrúar og þar hafði Ragna betur í oddaleik eins og í gær.

Gæti verið leynivopn

Í 2. umferðinni í dag mætir Ragna Söru Walker frá Englandi en Walker er í 198. sæti á heimslistanum.

,,Ég veit ekki hvaða stelpa þetta er en hún gæti verið eitthvert leynivopn hjá Englendingunum. Ég verð bara að mæta ákveðin til leiks og þó svo hún sé töluvert fyrir neðan mig á heimslistanum kem ég ekki til með að vanmeta hana,“ sagði Ragna.

Góður sigur hjá Tinnu

Tinna Helgadóttir sigraði Luciu Tavera frá Spáni, 21:12, 18:21 og 21:12, í 1. umferðinni. Sigur Tinnu verður að teljast mjög glæsilegur þar sem Tavera er í 81. sæti á heimslistanum en Tinna er í 256. sæti á sama lista.

Katrín Atladóttir tapaði fyrir Jeanine Cicognini frá Sviss í tveimur lotum, 21:14 og 21:13.

Katrín Atladóttir og Bjarki Stefánsson féllu úr leik í 1. umferðinni en þau biðu lægri hlut fyrir Vitaly Konov og Olenu Maschenko frá Úkraínu, 21:11 og 21:12.

Helgi og Tinna í 16 liða úrslit

Í tvenndarleiknum höfðu Helgi Jóhannesson og Tinna Helgadóttur betur gegn Eistunum Vahur Lukin og Helen Reino í 1. umferðinni , 21:13 og 21:13. Þau bættu síðan um betur í 2. umferð og sigruðu Adam Cwalina og Malgorzata Kurdelska frá Póllandi, 25:23. Helgi og Tinna eru þar með komin í 16 liða úrslit og mæta 19. besta pari heims, Robert Blair frá Englandi og Imogen Bankier frá Skotlandi, í dag.

Atli Jóhannesson tapaði fyrir Pablo Abian frá Spáni í 1. umferðinni í einliðaleik karla í gærkvöld, 12:21 og 8:21. Magnús Ingi Helgason tapaði fyrir Peter Mikkelsen frá Danmörku, 14:21 og 3:13, en Magnús Ingi hætti keppni í annarri lotu vegna nárameiðsla. Vonast er til að hann geti haldið áfram keppni í tvíliðaleiknum í dag.