Eftir Guðmund Sverri Þór sverrirth@mbl.is Talsvert hefur verið rætt um valréttarsamninga til stjórnenda fyrirtækja að undanförnu, m.a. hafa Samtök fjárfesta tekið málið upp.

Eftir Guðmund Sverri Þór

sverrirth@mbl.is

Talsvert hefur verið rætt um valréttarsamninga til stjórnenda fyrirtækja að undanförnu, m.a. hafa Samtök fjárfesta tekið málið upp. Mörg dæmi eru um að stjórnendur félaga fái sölurétt að hlutabréfum sínum í félögunum, sölurétt sem verja þá gengisfalli hlutabréfanna. Á sama tíma þarf hinn almenni hluthafi að horfa upp á verðmæti eignar sinnar falla ört. Til eru rannsóknir sem benda til þess að það sé allra hagur að hagsmunir hins almenna hluthafa og stjórnenda fari saman en þegar verðmæti eignarinnar rýrnar þykir mörgum hluthafanum súrt í broti að sjá stjórnendur „verðlaunaða.“

Lögmæti slíkra söluréttarsamninga hefur jafnvel verið dregið í efa með tilvísan til 76. greinar hlutafélagalaganna, laga nr. 2 frá árinu 1995, en þar segir: „Félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.“

Sitja ekki við sama borð

Taka má dæmi um forstjóra hlutafélags sem kaupir – eða gerir kaupréttarsamning um – 100 milljónir hluta í félaginu á genginu 50. Um leið gerir hann söluréttarsamning við sjálft félagið um sölu á jafnmörgum hlutum á sama gengi; í þessu tilbúna dæmi er hægt að nýta söluréttinn hvenær sem er. Samtímis kaupir hluthafi í sama félagi 1 milljón hluta á sama gengi. Þessi hluthafi er smærri fjárfestir og hefur því ekki bolmagn til þess að gera söluréttarsamning en yfirleitt er hægt að gera slíka samninga við fjármálastofnanir.

Síðan verður ört gengisfall á bréfunum og gengi þeirra fer niður í 40. Fjárfestirinn situr uppi með 10 milljón króna tap og verður að bíða og vona að gengið hækki á ný en forstjórinn getur hins vegar nýtt sér söluréttarsamninginn og félagið er samkvæmt samningnum skuldbundið til þess að kaupa af honum hlutabréfin á genginu 50. Forstjórinn tapar því engu á gengisfallinu.

Dæmi um það sem hér er lýst eru síður en svo óþekkt í íslensku viðskiptalífi. Ljóst er að forstjórinn og fjárfestirinn, sem báðir eru jafnréttháir hluthafar í félaginu, sitja ekki við sama borð og því er spurning hvort söluréttarsamningurinn brjóti í bága við 76. grein hlutafélagalaganna.

Starfskjarastefna

Svo þarf ekki endilega að vera. Öllum hlutafélögum yfir vissri stærð ber samkvæmt 79. grein hlutfélagalaganna að setja sér starfskjarastefnu og hana ber hluthafafundi að samþykkja. „Í starfskjarastefnunni skulu koma fram grundvallaratriði varðandi starfskjör stjórnenda og stjórnarmanna og stefnu félags varðandi samninga við stjórnendur og stjórnarmenn. Jafnframt skal koma þar fram hvort og þá við hvaða aðstæður og innan hvaða ramma heimilt sé að greiða eða umbuna stjórnendum og stjórnarmönnum til viðbótar grunnlaunum m.a. í formi: 1. Afhendingar hluta. 2. Árangurstengdra greiðslna. 3. Hlutabréfa, kaup- og söluréttar , forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu eða þróun verðs á hlutabréfum í félaginu. 4. Lánasamninga (þar undir sérstök lánskjör), enda séu þeir heimilaðir samkvæmt þessum eða öðrum lögum. 5. Lífeyrissamninga. 6. Starfslokasamninga,“ segir í greininni. En hversu stór (eða lítil) þurfa félög að vera til þess að þeim beri að setja sér starfskjarastefnu? Svarið við því er einnig að finna í 79. grein laganna. Þar segir: „Félagsstjórn í félagi sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda skv. 1.–3. mgr. 98. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, ... skal samþykkja starfskjarastefnu félagsins varðandi laun og aðrar greiðslur til forstjóra og annarra æðstu stjórnenda félagsins, svo og stjórnarmanna þess.“

Þarf að meta í hvert skipti

Þessi ákvæði 79. greinar má skoða í ljósi annarar málsgreinar 76. greinarinnar en þar segir að „Félagsstjórn og framkvæmdastjóri mega ekki framfylgja ákvörðunum hluthafafundar eða annarra stjórnaraðila félagsins ef ákvarðanirnar eru ógildar vegna þess að þær brjóta í bága við lög eða félagssamþykktir.“ Þá er spurningin hversu ótilhlýðilegur hagsmunirnir sem minnst er á í fyrstu málsgrein eru til þess að það brjóti í bága við lög.

Líkt og við á um mörg önnur lagaatriði má túlka það á marga vegu og er enginn ein skilgreining til á því hve ótilhlýðilegir hagsmunir eru. „Þetta verður að meta í hvert skipti fyrir sig,“ segir einn þeirra lögfróðu manna sem Morgunblaðið hefur rætt við en ljóst er að allar ákvarðanir félagsins verða að vera með hagsmuni þess að leiðarljósi. Trúnaður stjórnar er við hluthafa og félagið og eins og fram kemur í grein Áslaugar Björgvinsdóttur í Guðrúnarbók – afmæliriti Guðrúnar Erlendsdóttur frá árinu 2006 – hefur Hæstiréttur „iðulega í dómum sínum er varða ágreining um viðskipti í hlutafélögum vísað til reglu 76. gr. hfl.“ Þar vísar hún m.a. til dóms Hæstarréttar í máli Lyfjaverslunar Íslands frá árinu 2001 „þar sem ágreiningur var um þá ákvörðun stjórnar LÍ hf. að kaupa öll hlutabréf í F[rumafli] ehf. af einum hluthafa félagsins þrátt fyrir að áður hefði komið fram krafa um hluthafafund til þess að fjalla um málið. Hæstiréttur féllst á kröfu um lögbann, m.a. með vísan til þess að kaupin gætu verið til þess fallin að raska rétti hluthafa samkvæmt 76. gr.“ segir í grein Áslaugar.