Frá Tryggva Helgasyni: "NÚ á þessum tímum þegar menn óttast að verðbólgan sé á uppleið, þá heyrist meira talað um að spara."

NÚ á þessum tímum þegar menn óttast að verðbólgan sé á uppleið, þá heyrist meira talað um að spara.

Hér eru nokkrar hugmyndir, – og þótt hér sé að vísu ekki verið að benda á neinar stórkostlegar sparnaðarleiðir, þá safnast þegar saman kemur, – eða þannig var það í „gamla daga“.

Það fyrsta er að slökkva bílljósin í dagsbirtu. Það sparar bensín að hafa ljósin ekki kveikt og jafnframt sparar það rafala, perur og rafgeyma.

Á meira en 300 milljónum bíla í Bandaríkjunum eru ekki notuð ljós á daginn.

Annað er að nota einungis eina númersplötu á hvern bíl, og hafa hana aftan á bílnum. Þá er eitt enn og það er að hætta með öllu skoðunum á bílum. Með því mætti spara töluvert. Milljónir bíla í Bandaríkjunum eru aðeins með eina plötu og virðist gefast vel, og milljónir bíla eru ennfremur aldrei skoðaðir og það virðist ekki heldur skapa nein vandamál.

Enn ein sparnaðarleið er, að leggja niður víkingasveit lögreglunnar. Hún er, að mínu mati, óþörf.

Að sjálfsögðu er margt annað sem hægt er að gera til sparnaðar, og margt sem ég tel mjög aðkallandi að endurskoða og lækka, svo sem styrkveitingar til listamanna og leikhúsa.

Þá tel ég alveg sjálfsagt að fólk, það er allur almenningur, kynni sér fjárlögin og útgjöld ríkisins, enda finnst mér trúlegt að ýmsir geti þekkt mjög vel til í einhverjum hluta fjárlaganna.

Í framhaldi af því þá er – að mínu mati – eðlilegt að sömu menn bendi á hvar megi spara í hinum opinbera rekstri, svo sem í utanríkisþjónustinni, í ferðalögum embættismanna, í rekstri og fækkun sendiráða og mörgu fleiru, – en ég læt þetta duga í bili.

Við sjáum svo til hvað gert verður (ef eitthvað!) til þess að spara peninga sem teknir eru upp úr skattvasa almennings.

TRYGGVI HELGASON,

Holtagötu 3, Akureyri.

Frá Tryggva Helgasyni