Kristinn H.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður frjálslyndra, spurði fjármálaráðherra um ástæður þess að skrifstofum Fasteignamats ríkisins í Borgarnesi og á Egilsstöðum hefði verið lokað og „störfum þannig fjölgað í Reykjavík“ en fækkað á landsbyggðinni á þingi í gær.

Sagði ráðherra að þeim hefði fyrst og fremst verið lokað vegna minnkandi verkefna þar sem skráningu í landsskrá fasteigna væri lokið. Þá sagði hann ekki rétt að breytingarnar fælu í sér fjölgun starfa í Reykjavík því þó að verkefni þau sem þessi útibú hefðu sinnt færu til Akureyrar og Reykjavíkur yrði ekki fjölgað starfsfólki þar. Lagði hann jafnframt áherslu á að ákvörðunin hefði ekki verið tekin vegna óánægju með starfsemi viðkomandi útibúa FMR eða starfsmanna þeirra. þkþ