[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í síðustu viku var tekin til umræðu stefnuyfirlýsing félagsmálaráðs. Yfirferð formanns félagmálaráðs hvatti til góðrar umræðu um málaflokkinn.

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í síðustu viku var tekin til umræðu stefnuyfirlýsing félagsmálaráðs. Yfirferð formanns félagmálaráðs hvatti til góðrar umræðu um málaflokkinn. Eins og hann rakti hefur okkur Akureyringum sem betur fer lánast að ná ágætum árangri sem eftir hefur verið tekið. Ljóst er að samstaða meðal pólitískra fulltrúa hefur skipt þar miklu. Því er hinsvegar ekki að neita að það sem af er þessu kjörtímabili hefur okkur þótt draga heldur í sundur á mörgum sviðum. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur sýnt tilburði til að gera lítið úr þeirri samstöðu sem náðst hefur, m.a. með umdeildum breytingum á starfsemi Menntasmiðju kvenna.

Áherslur Vinstri-grænna

Á fundi bæjarstjórnar lögðum við bæjarfulltrúar Vinstri-grænna fram ályktun þess efnis að brýn verkefni væru að: Halda áfram uppbyggingu öldrunarheimila, bæta heimahjúkrun og heimaþjónustu, leysa húsnæðisvanda skammtímavistunar fyrir fatlaða, leita leiða til að stytta biðtíma í heilsugæslunni og fjölga félagslegum leiguíbúðum á Akureyri.

Sömuleiðis skoruðum við enn og aftur á meirihlutann að hverfa frá þeim hugmyndum sem uppi eru af þeirra hálfu varðandi breytingar á starfsemi Menntasmiðju kvenna og sætt hafa furðu meðal bæjarbúa.

Misjöfn viðbrögð

Allt eru þetta að okkar mati brýn verkefni sem full þörf er að taka á af meiri myndarskap en núverandi meirihluti virðist ætla að gera. Viðbrögð bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks við þessum áherslum okkar voru á þann veg að ekki er að vænta mikils stuðnings fyrir þessum málum úr þeirri áttinni. Það sama verður hinsvegar ekki sagt um formann félagsmálaráðs, Sigrúnu Stefánsdóttur. Félagslegar áherslur hennar vekja vonir um að það megi ná að hreyfa þessum málum áleiðis til betri vegar. Fulltrúar Samfylkingar eiga bersýnilega meiri samleið með fulltrúum Vinstri-grænna í þessum málaflokki en með samstarfsflokki sínum í meirihlutanum, Sjálfstæðisflokki.

Stöndum saman

Við ítrekum það álit okkar sem fram kom við umræður á bæjarstjórnarfundinum um skýrslu félagsmálaráðs að mjög margt af því sem verið er að vinna í þeim málum er til fyrirmyndar og til eftirbreytni. Með samstöðu og samheldni í þeim mörgu krefjandi málum sem undir þennan málaflokk heyra hefur okkur tekist heilt yfir að skapa traust og gott félagslegt umhverfi fyrir íbúa Akureyrar. Það má hinsvegar ekki líta svo á að við séum komin á hinn endalega áfangastað í þeim málum. Alls ekki. Við verðum stöðugt að sækja fram og leita leiða til að bæta og treysta þá þjónustu sem fyrir er og vera vakandi yfir nýjum tækifærum í þeim efnum. Við getum í sameiningu aukið enn frekar veg Akureyrar á þessu sviði sem öðrum. Við hvetjum því bæjarfulltrúa meirihlutans til að huga betur að því að halda þeirri samstöðu sem verið hefur við uppbyggingu félagslegra málefna á Akureyri í stað þess að ganga einir sinn veg án samráðs eða samvinnu við aðra er málið varðar.

Höfundar eru bæjarfulltrúar

Vinstri-grænna á Akureyri