Nýlentur Mahmud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, lenti í Moskvu í gær. Hann hyggst ræða friðarhorfur fyrir botni Miðjarðarhafs við rússneska ráðamenn í dag.
Nýlentur Mahmud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, lenti í Moskvu í gær. Hann hyggst ræða friðarhorfur fyrir botni Miðjarðarhafs við rússneska ráðamenn í dag. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, er nú í þriggja daga heimsókn í Moskvu. Er talið að hann muni ræða við rússneska ráðamenn um skipulagningu viðræðna um frið í Mið-Austurlöndum, sem Rússar hafa gefið til kynna að þeir vilji halda í júní.

Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, er nú í þriggja daga heimsókn í Moskvu. Er talið að hann muni ræða við rússneska ráðamenn um skipulagningu viðræðna um frið í Mið-Austurlöndum, sem Rússar hafa gefið til kynna að þeir vilji halda í júní. Yrðu þær viðræður í beinu framhaldi af fundi deiluaðila í Annapolis í nóvember síðastliðnum.

Rússland er einn meðlima Mið-Austurlandakvartettsins, hóps sem leitast við að koma á friði í Mið-Austurlöndum. Að auki eiga þar sæti Bandaríkin, Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar.

Ísraelar hafa lagst gegn því að Hamas-samtökin eigi aðild að friðarviðræðum, og hafa þrír meðlima kvartettsins fallist á þá kröfu. Heimsókn Abbas til Rússlands kyndir undir því að Rússar skjóti ekki fyrir það loku að rödd Hamas fái að heyrast.

Sergei Vershinin, deildarstjóri í rússneska utanríkisráðuneytinu, segir svo ekki vera. „Það er ekki til umræðu að bjóða Hamas á fund í Moskvu,“ hefur Interfax eftir Vershinin. aij