Kauphöllin Wall Street í New York borg.
Kauphöllin Wall Street í New York borg. — Reuters
ALLAR helstu hlutabréfavísitölur heimsins hækkuðu í gær, allt frá Tókýó til Bandaríkjanna. Þegar hurðir kauphallanna í New York skullu í lás hafði Dow Jones-iðnaðarvísitalan hækkað um 2,1% og samsetta Nasdaq-vísitalan um 2,8%.

ALLAR helstu hlutabréfavísitölur heimsins hækkuðu í gær, allt frá Tókýó til Bandaríkjanna. Þegar hurðir kauphallanna í New York skullu í lás hafði Dow Jones-iðnaðarvísitalan hækkað um 2,1% og samsetta Nasdaq-vísitalan um 2,8%. Sömu sögu er að segja úr Evrópu; FTSE-vísitalan hækkaði um 2,4% og þýska DAX um 1,8%.

Æ fleiri forsvarsmenn stærstu banka heims virðast nú hafa fyllst bjartsýni og segja hið versta að baki í lægð þeirri sem einkennt hefur markaði. Marcel Röhner, forstjóri UBS í Sviss, hefur látið hafa eftir sér að hann sjái fyrir endann á ölduganginum, eins og fram kom í Morgunblaðinu fyrr í vikunni en nú hafa þeir Richard Fuld, forstjóri Lehman Brothers, Lloyd Blankfein, forstjóri Goldman Sachs og John Mack, forstjóri Morgan Stanley, tekið í sama streng. Að sögn fréttaveitunnar Bloomberg hefur þeim þó ekki tekist að sannfæra fjárfesta um að svo sé enda eru fjárfestar minnugir þess að í desember sl. helltist bjartsýnin yfir marga stjórnendur bandarískra banka. Þá höfðu þeir rangt fyrir sér.