Þurrt Ung stúlka leitar vatns í Darfur.
Þurrt Ung stúlka leitar vatns í Darfur. — REUTERS
Leikstjóri: Paul Freedman. Þulur: George Clooney. Fram koma: John Predergrast, Minni Minawi, Eric Reeves, Samantha Power, Ahmed Ali, Ahmed Ibrahim Ondoua, Barack Obama, o.fl. 92 mín. Bandaríkin. 2007.
SANDUR og sorg er heimildarmynd sem er gerð til að hrista upp í fólki vegna þjóðarmorðanna í Darfur í Súdan. Hún á að fá fólk til að mótmæla sinnuleysi stjórnvalda, aðallega í Bandaríkjunum, og máttleysi alþjóðasamfélagsins. Ég veit ekki hvað íslenskir fjölmiðlar, eða stjórnvöld, sögðu þegar átökin hófust í Darfur 2003. Þá bjó ég í Bretlandi og Channel 4 News var strax vakandi fyrir hvað var að gerast. Ég fór því á þessa mynd með jákvæðu hugarfari. Allt sem reynir að benda á að ekki hefur tekist að binda enda á þennan óhugnað ennþá hlýtur að teljast spor í rétta átt.

Gefum okkur að þessi mynd sé góðra gjalda verð. Ég ætla samt að leyfa mér að efast um gildi hennar, m.a. vegna þess að hún nær líklega eingöngu til þeirra sem vilja hlusta. Ég vissi um Darfur áður en ég fékk mér sæti og það að hrella mig með illa leiknum líkum með reglulegu millibili hvetur mig ekki til að ganga í The Save Darfur Coalition. Það fékk mig reyndar meira til að hugsa um hvar væri virðingin fyrir látnu fólki. Þarf fólk að sjá 400.000 fórnarlömb þjóðarmorðs til að trúa að það hafi átt sér stað? Kannski í Bandaríkjunum. Annað sem sló mig var þegar hæversk kona fór að gráta í flóttamannabúðunum og kvikmyndatökumaðurinn færði sig og nánast tróð myndavélinni í andlitið á henni til að festa tárin á filmu. Blessuð manneskjan, átti hún engan rétt lengur? Svona vinnubrögð hjálpa ekki málstað sem þarf virkilega á stuðningi að halda.

Myndin er allt í lagi sem samanþjöppuð sögukennsla og margir drífandi persónuleikar koma þarna fram, sumir fullir eldmóð. Það er samt einfaldlega ekki nóg. Framleiðendur hefðu átt að tala meira við Darfur-búa sjálfa og kynnast þeim betur. Síðan hefði verið merkileg viðbót ef þeir hefðu fengið fulltrúa úr ríkisstjórn Bush til að sitja fyrir svörum.

Anna Sveinbjarnardóttir