Þorsteinn Már Baldvinsson
Þorsteinn Már Baldvinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Grétar Júníus Guðmundsson gretar@mbl.is NORÐMAÐURINN Frank O.

Eftir Grétar Júníus Guðmundsson

gretar@mbl.is

NORÐMAÐURINN Frank O. Reite, sem var einn af framkvæmdastjórum Glitnis í þrjú ár, fékk 34 milljónir norskra króna, eða um 510 milljónir íslenskra króna, miðað við gengið í gær, þegar hann hætti störfum síðastliðið haust.

„Þetta er hluti af því rugli sem hefur viðgengist í fjármálageiranum,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis. „Þetta lýsir þeirri ofurtrú sem einstaklingar í fjármálageiranum hafa haft á sjálfum sér. Ég lýsti því hins vegar yfir þegar ég tók við sem stjórnarformaður Glitnis að ég myndi leggja mitt af mörkum til að þessu verði breytt hjá Glitni.“

Reite segist í samtali við norska blaðið Dagens Næringsliv vera sammála því að þetta séu „hræðilega miklir peningar“. Hann segir að greiðslan skiptist í þrennt. Í fyrsta lagi sé um að ræða bónus fyrir árið 2006, í annan stað laun fyrir síðasta ár, og í þriðja lagi uppgjör á kaupréttarsamningum frá því hann réð sig til starfa. Hann upplýsir ekki hvernig skiptingin á greiðslunum er.

Reite fór úr framkvæmdastjórn Glitnis síðastliðið haust en keypti þá 6% hlut í fasteignafélaginu Glitnir Property Holding og hefur haldið áfram sem stjórnarformaður þess.

Allt of hár kostnaður

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, tók við sem nýr formaður stjórnar Glitnis á aðalfundi bankans í febrúar sl. Hann lagði þá meðal annars til að laun stjórnarmanna yrðu lækkuð, sem var samþykkt. Þá lýsti hann því yfir m.a. í viðtali við Morgunblaðið að það væri hans skoðun að kostnaður við laun stjórnenda í bankakerfinu annars vegar og starfslokasamninga hins vegar væri allt of hár. Á meðan hann sæti sem formaður í stjórn Glitnis yrðu slíkir samningar ekki gerðir.