Björg Magnúsdóttir bjorgmagnus@gmail.com
Björg Magnúsdóttir bjorgmagnus@gmail.com
„Það á ekki að taka mark á stúdentum sem mótmæla þeim (skólagjöldum), þeir eru bara í hagsmunabaráttu.

„Það á ekki að taka mark á stúdentum sem mótmæla þeim (skólagjöldum), þeir eru bara í hagsmunabaráttu.“ Þessi setning hrundi inn á bloggsíðu áberandi netverja þegar umræða um upptöku skólagjalda í Háskóla Íslands fór af stað nýverið í kjölfar frumvarps sem lagt var fyrir þingheim 3. apríl sl. Frumvarpið á í heild sinni að einfalda stjórnsýslu háskólans fyrir sameiningu HÍ og KHÍ nú í sumar. Í því er kveðið á um utanaðkomandi meirihluta í háskólaráði, æðsta ákvarðanatökuvaldi háskólans, sem og glufu til hækkunar skráningargjalda og þar með upptöku skólagjalda. Það að enginn stúdent hafi verið hafður með í ráðum við gerð og útbúning frumvarpsins, sem hefur jafnveigamiklar breytingar á háskólasamfélaginu öllu og verið getur er í hæsta máta undarlegt. Jafnundarlegt og að lýsa því yfir opinberlega að við stúdentar séum ekki gjaldgengir í umræðu um framtíðarstefnu Háskóla Íslands. Sérlega með þeim rökum að við séum „bara í hagsmunabaráttu“ og þess vegna beri að afskrifa fljótlega hugmyndir varðandi framtíðarmótun háskólasamfélagsins og þjóðfélagsins sem við hyggjumst skapa. Er þar með verið að mælast til þess að ummæli allra þeirra fylkinga, aðila og flokka sem eru „bara í hagsmunabaráttu“ verði felld út, af þeirri ástæðu að þeir aðilar hafa hagsmuna að gæta? Og við það vaknar spurningin: hver hefur ekki hagsmuna að gæta þegar horft er til Háskóla Íslands og þess þekkingarakkeris þjóðfélagsins sem hann óumdeilanlega er, og þar með gjaldgengur í umræðu um framtíð hans? Auðvitað erum við stúdentar í hagsmunabaráttu og vegferð til betri og bættari háskóla, rétt eins og rektor og alþingismenn, það veit það hver manneskja. En því má hins vegar aldrei gleyma að það erum við, stúdentar, sem höfum langmestra hagsmuna að gæta þegar kemur að málefnum háskólans. Og einmitt af þeirri einföldu ástæðu ættum við að vera með í hverri ákvörðun sem tekin er um HÍ, innan hans sem utan. Vegna þess að við stúdentar erum Háskóli Íslands eða hann væri að minnsta kosti ekkert án okkar.

Höfundur er formaður Stúdentaráðs