Í Hammersmith Apollo „[Þ]egar Björk söng á ensku „this is my home“ var hún ekki síst að vísa til þess að hér var hún á heimavelli að syngja fyrir sína nánustu, fólkið sem féll fyrir Debut og hefur fylgt henni síðan.“
Í Hammersmith Apollo „[Þ]egar Björk söng á ensku „this is my home“ var hún ekki síst að vísa til þess að hér var hún á heimavelli að syngja fyrir sína nánustu, fólkið sem féll fyrir Debut og hefur fylgt henni síðan.“ — Ljósmynd/Árni Matthíasson
Hammersmith Apollo, London. Mánudaginn 14. apríl, 2008.

UNDANFARIÐ ár hefur Björk Guðmundsdóttir verið á ferð um heiminn til að kynna breiðskífuna Volta , byrjaði eiginlegt tónleikahald í Laugardalshöllinni 9. apríl 2007 eftir smá upphitun á Nasa 1. apríl. Tónleikarnir í Höllinni voru í raun einskonar generalprufa, skemmtilegir sem slíkir, en enn vantaði nokkuð upp á að hljómsveitin næði vel saman og að lögin af Volta gengju fyllilega upp.

Á tónleikum í Bilbao í Baskalandi þremur mánuðum síðar gekk allt mun betur, sveitin smollin saman og lögin slípast til og því mátti búast við því að enn betur myndi takast upp þegar Björk sneri aftur til Bretlands í vikunni að leika á fernum tónleikum í Hammersmith Apollo-tónleikahöllinni í vesturenda Lundúna.

Áhugi fyrir tónleikunum var gríðarlegur, enda Volta almennt vel tekið og fjögur ár liðin frá síðustu tónleikum Bjarkar í Bretlandi. Það kom því ekki á óvart að það seldist upp á alla Hammersmith-tónleikana á mettíma og fengu færri en vildu.

Tónleikarnir fóru rólega af stað, blásaradecettinn marseraði inn á sviðið skrautlegur mjög og spilaði „Brennið þið vitar“, en síðar var gefið í með „Earth Intruders“ en höfuðbúnaður Bjarkar var óneitanlega framandlegur, mikill dúskahjálmur og sást varla framan í hana. Að því loknu komu gamlir kunningjar af Homogenic , „Hunter“ og „Unravel“ og svo tvö lög með gestaflytjendum, „Hope“, þar sem Toumani Diabate spilaði undir á koru, og „Dull Flame of Desire“ með þeim stórkostlega söngvara Antony Hegarty en á milli kom reyndar „The Pleasure Is All Mine“.

Flutningur hennar og Antonys á „Dull Flame of Desire“ var einn af hápunktum tónleikanna, reyndar líkt og það lag er eitt það eftirminnilegasta af Volta , en næsta lag þar á eftir, „Jóga“, var enn betra og „Vertebrae By Vertebrae“, sem kom þar næst, stóð því lítt að baki. Alla jafna voru lögin sem hún flutti á tónleikunum úrval frá ferlinum, lög sem sum eru klassík og önnur sem verða það kannski síðar meir, en öll afskaplega vel samin og frábærlega flutt.

Þegar „Pluto“ hljómaði svo í lokin gengu áheyrendur síðan af göflunum, fólkið á svölunum stóð á fætur og æpti og öskraði en niðri í sal var aðalfjörið; tónleikahöllin breyttist í fimm þúsund manna dansstað á einni nóttu. Fólkið vildi meira og eftir langt uppklapp meðan hljóðmenn leituðu að hljóðnemanum sem Björk kastaði út í loftið í algleymisstemningu, fékk það líka meira því blásaradecettinn sneri aftur með Björk og flutti magnaða útgáfu af akkerislaginu. Það var að hálfu sungið á íslensku og að hálfu á ensku, en þegar Björk söng á ensku „this is my home“ var hún ekki síst að vísa til þess að hér var hún á heimavelli að syngja fyrir sína nánustu, fólkið sem féll fyrir Debut og hefur fylgt henni síðan.

Loka-lokalag tónleikanna var svo slagarinn umdeildi „Declare Independence„/„Lýsið yfir sjálfstæði“, lagið sem vakti svo mikla gremju kínverskra yfirvalda en vakti gríðarlega hrifningu í Hammersmith, enda er það ekki síður hvatning til þess að vera maður sjálfur en hvatning til þjóða og þjóðarbrota að standa á eigin fótum. Um leið og fyrstu tónarnir byrjuðu tóku áheyrendur enn hressilegar við sér, enda keyrslan yfirgengileg. Frábær endir á mögnuðum tónleikum og gott ef þetta eru ekki bestu tónleikar sem ég hef séð með Björk, þó úr ýmsum sé að velja.

Árni Matthíasson