Hinn góðkunni og gamalreyndi grínari Bill Cosby er ekki dauður úr öllum æðun, en hann hyggst gefa út hipphopp-plötu á næstunni. hann þekkir þó sín takmörk og fær aðra til að rappa.

Eftir Trausta Salvar Kristjánsson

traustis@24stundir.is

Hinn aldni leikari og uppistandari Bill Cosby er aldeilis ekki dauður úr öllum æðum, en þessi þeldökki skemmtikraftur er sjötíu og eins árs gamall. Grínistinn góðkunni hyggur nú á útgáfu hipphopp-plötu er nefnist „Cosby narratives Vol. 1: State of Emergency“ og er einskonar hræringur af sögum og bröndurum í bland við taktfasta hipphopp-tónlist.

Krafa um kurteisis hipphopp

Cosby segist ekki fyrir sitt litla líf ætla að rappa á plötunni. „Ég myndi ekki geta hreyft munninn nógu hratt né geta sagt sum orðin sem þeir nota í dag,“ sagði Bill sem mun njóta aðstoðar gestatónlistarmanna. Hann ýjaði að því að blótsyrði væru allt of algeng í tónlist. „Mín plata lítur til rauna þeirra er blasa við ungu fólki í dag, en notast ekki við blótsyrði, sem oft eru tilgangslaus í tónlistinni í dag.“

Textarnir á plötu Cosbys fjalla mikið til um gildi menntunar og sjálfsvirðingu og eiga að styrkja sjálfsmat og sjálfsöryggi hlustenda. Það er í fullkomnu jafnvægi við boðskap Cosbys í gegnum tíðina, sem hefur lengi predikað slíkt í garð kynbræðra sinna og -systra, en honum blöskrar að ungt fólk skuli einblína á frama í skemmtana- og tískuiðnaðinum í stað þess að mennta sig og setja sér raunhæf markmið. Þá hefur Cosby lengi barist fyrir almennum borgararéttindum þeldökkra og er góðvinur predikarans og fyrrverandi forsetaframbjóðandans Jesse Jackson.

Ekki fyrsta plata Cosbys

Þó hér sé um að ræða fyrstu plötu Cosbys með hipphopp-áhrifum, getur hann státað af nokkuð reglulegri útgáfu síðan 1963. Um er að ræða upptökur af uppistandi meistarans, sem gjarnan byggist í hans eigin lífsraunum og þar er af nógu að taka, en Cosby missti til dæmis son sinn í skotárás árið 1997, þegar hann var að skipta um dekk á bíl sínum.

Cosby býst ekki við að diskurinn slái í gegn, það sé óraunhæft, en lofar samt meiru, því hann segist ávallt geta betur.

Í hnotskurn
Hóf ferilinn í sjónvarpsþáttunum I Spy. Fékk sinn eigin þátt 1969, The Bill Cosby show. Hefur haft áhrif á Richard Pryor, Jerry Seinfeld, Chris Rock, Dave Chapelle og marga fleiri.