Kreppan Björgólfur Thor telur alþjóðlega kreppu vara út árið.
Kreppan Björgólfur Thor telur alþjóðlega kreppu vara út árið. — Morgunblaðið/Ásdís
BJÖRGÓLFUR Thor Björgólfsson telur það vera vonbrigði að ekki hafi ræst meira úr Eimskip og Icelandic. Þetta sagði hann í viðtali á Markaðnum á Stöð 2 í gær.

BJÖRGÓLFUR Thor Björgólfsson telur það vera vonbrigði að ekki hafi ræst meira úr Eimskip og Icelandic. Þetta sagði hann í viðtali á Markaðnum á Stöð 2 í gær.

Hann sagðist lítið koma að rekstri þessara félaga, líkt og með flestan annan rekstur hér á landi, en horfandi á málið utan frá væri „leiðinlegt“ að sjá þá slæmu umfjöllun sem félögin hefðu fengið. Sér í lagi Eimskip væri „gott fjöregg“ sem gera mætti meira úr. Í félögunum væri nýtt lið að taka til hendinni sem ætlaði sér að koma rekstrinum í réttan farveg.

Spurður í viðtalinu hvaða erlendir aðilar hefðu keypt stóran hlut í Straumi á sínum tíma sagði hann bankaleynd koma í veg fyrir að það væri upplýst. Það færi í taugarnar á sér að ekki mætti upplýsa það nánar en um erlendan sjóð hefði verið að ræða. Vonandi yrði þetta upplýst á einhverjum tímapunkti.

Björgólfur Thor sagði ennfremur að við værum stödd í kreppu sem á heimsvísu gæti varað út þetta ár og hér á landi jafnvel lengur þar sem áhrifin kæmu síðar fram hér.

Menn hefðu farið of geyst í sínum fjárfestingum, og hann kannski ekki undanskilinn, og nú þyrftu fjárfestar að huga að eignum sínum og hámarka virði þeirra frekar en að leita nýrra fjárfestinga. Fjárfestar yrðu að stíga varlega niður til jarðar.

„Það er búið að vera gott partí en nú er bara kominn mánudagur og búið að loka fram á næstu helgi,“ sagði hann.

Spurður í viðtalinu út í orðróm um sameiningar banka hér á landi, t.d. Landsbankans og Straums, sagði Björgólfur Thor engar viðræður þess efnis hafa farið fram. Í núverandi árferði væri mjög ólíklegt að slíkar sameiningar teldust heppilegar. Annars væri þetta ekki í hendi hluthafa heldur lánadrottna bankanna og þeir væru ekki staddir hér á landi heldur erlendis og væru í krísu.