Aukið samstarf Frá undirritun samstarfssamningsins, f.v. Bjarni Stefánsson, lögreglustjóri á Blönduósi, Stefán Skarphéðinsson, lögreglustjóri í Borgarnesi, og Kristín Völundardóttir, lögreglustjóri á Vestfjörðum.
Aukið samstarf Frá undirritun samstarfssamningsins, f.v. Bjarni Stefánsson, lögreglustjóri á Blönduósi, Stefán Skarphéðinsson, lögreglustjóri í Borgarnesi, og Kristín Völundardóttir, lögreglustjóri á Vestfjörðum. — Morgunblaðið/Theodór
UNDIRRITAÐUR hefur verið samstarfssamningur lögregluliðanna á Blönduósi, lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum og lögreglunnar á Vestfjörðum.

UNDIRRITAÐUR hefur verið samstarfssamningur lögregluliðanna á Blönduósi, lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum og lögreglunnar á Vestfjörðum. Felur samstarfssamningurinn í sér frekari útfærslu og aukningu á annars góðu samstarfi milli liðanna á undanförnum árum.

Umdæmi lögregluliðanna liggja saman á svæðinu frá Langjökli um Holtavörðuheiði, Laxárdalsheiði og niður í Gilsfjörð. Styrkja á og efla löggæsluna á umdæmismörkum, m.a. með sérstöku hálendiseftirliti. Þá á að tryggja bætta þjónustu við almenning með því að sá lögreglubíll sem næstur er slysavettvangi hverju sinni sé sendur á staðinn án tillits til umdæmismarka. Einnig er ákvæði í samningnum um gagnkvæma aðstoð við rannsóknir stærri mála.