Fundinum er ekki lokið. Síðasta ritgerðin og ekki sú sísta í Indriðabók, sem gefin var út til heiðurs Indriða Indriðasyni á áttræðisafmæli hans, heitir Að loknum fundi. En fundinum er alls ekki lokið, fundinum með leiðtoganum góða, bróður og vini, Indriða. Enn stígur hann sínum „fæti á fold“, ungur í anda, skörulegur og djúpvitur þó að aldargamall sé. Enn getur hann miðlað úr heilnæmum þekkingarbrunni sínum. Enn bregður hann lit og ljóma á tilveruna hvar sem hann birtist.

„Hvar skal byrja“ ef minnast skal óvenjulangs starfsdags Indriða Indriðasonar? Kornungur setti hann saman smásagnasafn á nokkrum vikum af því að hann hafði ekki annað að gera. Hlaut það góðar viðtökur. Síðar gerðist hann listfengur ritgerðasmiður og er gott dæmi um það prýðileg og fróðleg ritgerð um föður hans, skáldið Indriða Þórkelsson. Merkilegt er að þeim frændum, Indriða og Þóroddi Guðmundssyni, tókst báðum að rita svo ágæt verk um feður sína, skáldin á Fjalli og Sandi, að fáir munu eftir leika. Þá hefir ættfræðingurinn Indriði unnið slíkt þrekvirki með bókum sínum um ættir Þingeyinga að það eitt myndi teljast prýðilegt æviverk venjulegs manns. En ef til vill er hann minnisstæðastur sem félagsmálagarpurinn óþreytandi, ræðumaðurinn sem flutti íslenskt mál af einstakri snilld, hugsjónamaðurinn sem sá lengra og kafaði dýpra en flestir.

Fundinum er ekki lokið og okkur vinum Indriða og bræðrum gefst nú sérstakt tækifæri til að þakka honum allt sem hann „var og vann“. Ef að líkum lætur mun fundinum við Indriða ekki heldur ljúka þegar hann hverfur til annarra heimkynna. Orð hans og athafnir munu lifa í hugum okkar og það sem meira er: Bestu verk hans munu tala til fólks meðan íslensk tunga er töluð og þjóð vor man uppruna sinn og ætterni.

Ólafur Haukur Árnason.