— 24stundir/Kristinn
Ólafur Gunnarsson rithöfundur heldur beat-dag í byrjun maí. Erlendir gestir koma sérstaklega til landsins í tilefni dagsins og íslenskir listamenn verða einnig meðal þátttakenda.

Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur

kolbrun@24stundir.is

Ólafur Gunnarsson rithöfundur er að undirbúa beat-hátíð sem haldin verður á heimili hans, Stóru Klöpp við Suðurlandsveg, 3. maí. Hátíðin er haldin í minningu beat-höfundarins Jack Kerouac og erlendir og íslenskir rithöfundar og listamenn taka þátt í henni.

Keppst um þátttöku

„Það er hrein tilviljun og þó ekki að beat-hátíð skuli vera haldin heima hjá mér,“ segir Ólafur. „Fyrir tuttugu árum þýddi ég On the Road eftir Jack Kerouac sem heitir í íslenskri þýðingu minni Á vegum úti. Þessi bók átti hálfrar aldar afmæli nú fyrir stundu. Þá voru ýmsir menn héðan og þaðan úr heiminum beðnir um að skrifa í amerískt hátíðarrit í minningu Kerouac og til heiðurs bókinni. Bókin kom út síðastliðið haust. Rithöfundurinn Ron Whitehead stóð fyrir útgáfunni en hann var mikill vinur Allen Ginsberg. Ron hafði samband við mig og sagðist vera að fara í upplestrarferð um heiminn og spurði hvort ég vissi um góðan stað á Íslandi þar sem hann gæti fengið að kasta sér niður og sofa á nóttinni. Ég sagði honum að ég byggi á því sem væri sennilega á amerísku kallað „small farm“. Þar væri útihús þar sem ég geymdi tvo gamla bíla, Cadillac frá 1968 og 1959 módel af Pontiac en ef hann kærði sig um gæti hann fengið að gista þar. Hann sagði þetta stórkostleg tíðindi, hann gæti ekki geta hugsað sér betri eða stórkostlegri félagsskap en þessa gömlu bíla.

Ron spurði hvort við ættum ekki að hafa upplestrardag á bóndabænum mínum. Ég sagði jú, það væri ágætis verönd í kringum húsið og við ættum að geta lesið þar upp fyrir þá sem hefðu áhuga á að koma og hlusta á okkur. Ég var varla búinn að snúa mér við þegar Ron var búinn að kalla til annað beat-skáld og sömuleiðis konu sem ætlar að gera heimildarmynd um þennan upplestrardag. Svo bættist við amerísk skáldkona, Eileen Myles, og útgefandi hennar og eftir hálfan mánuð fæ ég tölvupóst og þá er amerískt lárviðarskáld og góðvinur Kerouack, Frank Messina, kominn í hópinn.“

Afmæli úgefanda

Michael Pollock, Einar Kárason, Sjón, Hilmar Örn Hilmarsson, Birgitta Jónsdóttir og Jónsi í Sigur Rós munu einnig verða meðal þátttakenda. „Svo höfum við einhver leynivopn sem við gefum ekki upp að þessu sinni,“ segir Ólafur og bætir við: „Ef einhverjir finna hjá sér mikla löngun til að taka þátt

í þessu með okkur og vilja lesa upp þá er það velkomið.“

Mikið verður um dýrðir þennan dag á heimili Ólafs og grillað verður fyrir börn og fullorðna.

„Beat-dagurinn er 3. maí en þá á minn ágæti vinur og útgefandi til heillar eilífðar, Jóhann Páll Valdimarsson, afmæli. Ég er að vinna í því að Jóhann láti afmælisdag sinn renna saman við beat-daginn, komi upp eftir og haldi upp á afmæli sitt þar,“ segir Ólafur.

Í hnotskurn
Beat-kynslóðin er notað um hóp bandarískra rithöfunda sem mikið bar á upp úr 1950 og höfnuðu viðurkenndum reglum samfélagsins. Helstu frömuðir beat-kynslóðarinnar voru Jack Kerouac, Allen Ginsberg og William Burroughs.