Bretland Tom Burnham hefur komið yfir 40 sinnum til Íslands á síðustu árum og segir ýmis tækifæri vera í auknum viðskiptum milli Breta og Íslendinga. Hann undirbýr golfkeppni milli Breta og Íslendinga í anda Ryder Cup.
Bretland Tom Burnham hefur komið yfir 40 sinnum til Íslands á síðustu árum og segir ýmis tækifæri vera í auknum viðskiptum milli Breta og Íslendinga. Hann undirbýr golfkeppni milli Breta og Íslendinga í anda Ryder Cup. — Morgunblaðið/Golli
Tom Burnham var á dögunum gestur á morgunverðarfundi Bresk-íslenska viðskiptaráðsins þar sem hann greindi m.a frá góðri reynslu sinni af viðskiptum við Íslendinga.

Tom Burnham var á dögunum gestur á morgunverðarfundi Bresk-íslenska viðskiptaráðsins þar sem hann greindi m.a frá góðri reynslu sinni af viðskiptum við Íslendinga. Björn Jóhann Björnsson fékk sér egg og beikon, hlýddi á Íslandsvininn og ræddi við hann að fundi loknum. Burnham er m.a. að undirbúa golfkeppni milli Íslendinga og Breta í anda Ryder Cup.

Tom Burnham hefur stundað viðskipti með íslenskum fyrirtækjum í Bretlandi í meira en tíu ár. Á þeim tíma hefur hann heimsótt Ísland oftar en 40 sinnum og hefur því orðið talsvert af landanum að segja.

Síðustu misserin hefur hann einkum unnið að ýmsum verkefnum með og fyrir Útflutningsráð, sérstaklega tengdum ferðaþjónustu og fyrirtækjum á því sviði. Eitt af því sem hann kynnti á fundinum var fyrirhugað golfmót í anda Ryder Cup þar sem Vesturland etur kappi við kylfinga frá Northumberlandi á Englandi. Er stefnt að því að halda þetta mót í fyrsta sinn á næsta ári, sem verður til skiptis hér á landi og í Bretlandi.

Margt líkt með Bretum

Burnham sagði það skemmtilegt að eiga viðskipti við Íslendinga, skemmtilegra en við aðra Norðurlandabúa og margt væri líkt með þeim og Bretum. Að sama skapi lýstu Bretar yfir mestri ánægju af viðskiptum við Íslendinga, það væri eins og að eiga viðskipti við einhvern í fjölskyldunni. Báðar þjóðar væru í eðli sínu sjálfstæðar og hefðu hvor á sinn hátt þurft að berjast fyrir lífi sínu. Bretar og Íslendingar hefðu það einnig sameiginlegt að vantreysta kerfinu, lýðræðið færi ekki eingöngu fram á þjóðþingunum heldur úti á meðal fólksins. Burnham sagði þjóðirnar ennfremur hafa sams konar húmor, og ekki vantaði heldur húmorinn hjá Burnham sem fór á kostum í lýsingum sínum á Norðurlandabúum, sumt varla hæft til prentunar!

Í erindi sínu fjallaði hann nefnilega einnig um Norðurlöndin almennt og bar þau saman við Bretland. Löndin ættu það m.a. sameiginlegt að þar byggi harðduglegt og heiðarlegt fólk, velferð væri mikil, auðvelt væri að byggja upp mannleg samskipti, mannréttindi væru í heiðri höfð, fjölmiðlarnir byggju við mikið frjálsræði, skiptar skoðanir væru um Evópusambandið (að Finnum undanskildum) og norræn fyrirtæki stæðu almennt vel í skilum, ólíkt breskum sem gætu sýnt mikinn trassaskap í þeim efnum.

Hann sagði Íslendinga þó ekki vera jafn-stundvísa og frændur þeirra á Norðurlöndum, einkum Svíar.

„Norðurlandaþjóðirnar vita meira um Bretland en við Bretar nokkurn tímann um Norðurlöndin,“ sagði Burnham og benti á að um 30% Íslendinga heimsæktu Bretland á ári hverju. Breskt sjónvarpsefni væri mjög vinsælt á Norðurlöndunum og ekki þyrfti að minnast mikið á áhugann á ensku knattspyrnunni. Hann sagði Breta að sama skapi ekki jafn-duglega að rækta viðskiptasambönd sín við önnur lönd. Mörg ár gætu liðið á milli þess sem þeir heimsæktu viðskiptavini sína erlendis.

Verjast með fjölmiðlaherferð

Í samtali við Morgunblaðið sagðist Burnham vera sannur Íslandsvinur, hann hefði mikla ánægju af að heimsækja Ísland og reynsla sín af viðskiptum við Íslendinga væri mjög góð. Hann sagði almennt mjög vel talað um íslensk fyrirtæki í Bretlandi og viðhorfið væri allt annað og jákvæðara en t.d. í Danmörku, þar sem Íslendingum hefði verið tekið heldur fálega. Bretar væru alvanir því að fyrirtæki þeirra væru í erlendri eigu.

„Hið eina sem upp á hefur komið er umfjöllun breskra fjölmiðla nýverið í þá veru að hvetja breska sparifjáreigendur að taka peninga sína út af reikningum íslensku bankanna. Á þessu verða íslensk stjórnvöld og fyrirtæki að taka með því að verja talsverðum fjármunum á ári hverju í fjölmiðlaherferð í Bretlandi, þannig að hægt sé að verjast umfjöllun sem þessari. Þessar fregnir komu Bretum verulega á óvart en ég veit sem er að íslensku bankarnir eru mjög sterkir,“ sagði hann.

Burnham hefur aðallega starfað með Íslendingum á sviði ferðaþjónustu og hann sagði mikil tækifæri vera ónýtt á því sviði. Einnig væru möguleikar fyrir upplýsingatæknifyrirtæki að hasla sér völl á Bretlandi og þá nefndi hann einnig erfðavísindin.

En þótt Burnham sé hrifinn af Íslandi sagði hann að margt mætti gera betur í ferðaþjónustu og skipulagi ferða til Íslands. Þannig mættu t.d. Icelandair og ferðaskrifstofurnar ekki skipuleggja ferðirnar með eingöngu Reykjavík og næsta nágrenni í huga. Huga mætti betur að ferðamöguleikum út á land, þar væri hið raunverulega Ísland, ekki eingöngu í Reykjavík.

„Þetta er ekki bara vandamál á Íslandi. Ferðir eru oftast miðaðar við stórborgirnar og ekki hugað nógu vel að áhugaverðum stöðum fjarri alfaraleið. Við glímum einnig við þetta á Englandi.“

Þórshamarinn

Spurður út í golfkeppnina segir Burnham markmið hennar að auka samskipti og viðskipti Íslendinga og Breta. Stefnt væri að því að halda mótið hér á landi í júnímánuði, í miðnætursólinni að hætti Arctic Open, og á Englandi í október eða nóvember. Sem fyrr segir verður þetta í fyrsta lagi á næsta ári. Hugmyndin væri að fljúga beint til Newcastle með kylfinga frá Íslandi og gefa þeim færi á að kynnast betur norðausturhluta Englands. Síðan yrði boðið upp á flug frá Newcastle með breska kylfinga til Íslands. Burnham er í samstarfi við ferðaþjónustuaðila á Vesturlandi og Norðimbralandi og er verið að vinna í því núna að fá styrktaraðila. Keppt verður um Þórshamarinn svonefnda, með vísun til víkingahefðarinnar, og gripurinn þannig hannaður að hægt verður að kneyfa úr honum öl!

„Þetta hefur verið draumur minn lengi. Ég hef starfað náið með fyrirtækjum tengdum golfíþróttinni og það jafnast ekkert á við að leika golf í miðnætursólinni á Íslandi. ArcticOpen hefur heppnast stórkostlega á Akureyri, en það mót dregur alla þangað. Við frá norðausturhluta Englands eigum hins vegar í samstarfi við Vestlendinga og viljum að sem flestir ferðist þangað,“ segir Burnham að endingu, ákaflega hress karl sem íslensk stjórnvöld ættu að ráða nú þegar sem starfsmann á Bretlandseyjum við að kynna Ísland og Íslendinga. Það var a.m.k. vel þess virði að fá sér egg og beikon og hlusta á hressilegt erindi hans í morgunsárið, með útsýni frá efstu hæð Húss atvinnulífsins yfir Esjuna og sundin blá.

bjb@mbl.is

Höf.: bjb@mbl.is