SAMKEPPNISEFTIRLITIÐ mun ekki aðhafast vegna fréttar Morgunblaðsins á þriðjudag, um eiganda flutningafyrirtækis sem óskaði eftir tilboðum frá olíufélögum um viðskipti og fékk svör frá öllum upp á sömu krónutölu.

SAMKEPPNISEFTIRLITIÐ mun ekki aðhafast vegna fréttar Morgunblaðsins á þriðjudag, um eiganda flutningafyrirtækis sem óskaði eftir tilboðum frá olíufélögum um viðskipti og fékk svör frá öllum upp á sömu krónutölu. Komi viðkomandi upplýsingum beint til Samkeppniseftirlitsins verður hins vegar metið hvort þær gefi tilefni til frekari athugunnar.

Eigandinn, sem ekki vildi láta nafns síns getið, fékk tilboð frá N1, Skeljungi, Olís og Atlantsolíu. „Ég hélt að eftir að olían hækkaði um helming væri hugsanlegt að ég gæti fengið meiri afslátt og því óskaði ég eftir tilboðum frá olíufélögunum. Ég fékk tvö skrifleg tilboð og tvö munnleg og þau voru öll upp á sömu krónutölu. Það er ekki hægt að draga aðra ályktun en að enn sé samráð í gangi.“

Olíufélögin höfnuðu því öll að eitthvert samráð væri í gangi og sendi Olíuverzlun Íslands einnig frá sér tilkynningu, sem birt var í Morgunblaðinu í gær. Í henni var aðdróttunum og dylgjum um samráð harðlega gagnrýnt.

Getur sent nafnlaust

„Hann hefur þann kost að snúa sér til okkar og getur þá ýmist óskað nafnleyndar eða sent upplýsingarnar nafnlaust í gegnum heimasíðu Samkeppniseftirlitsins,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Hann vildi að öðru leyti ekkert tjá sig um þetta einstaka mál. „En berist okkur upplýsingar um málið gefur það okkur færi á að meta hvort það gefi tilefni til athugunar.“