Loftleiðir Með samstarfinu verður nafn Icelandair þekktara í Asíu
Loftleiðir Með samstarfinu verður nafn Icelandair þekktara í Asíu
Eftir Halldóru Þórsdóttur halldorath@mbl.is ÞAÐ er spennandi að vera kominn inn á þetta markaðssvæði hinum megin á hnettinum,“ segir Guðni Hreinsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic.

Eftir Halldóru Þórsdóttur

halldorath@mbl.is

ÞAÐ er spennandi að vera kominn inn á þetta markaðssvæði hinum megin á hnettinum,“ segir Guðni Hreinsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic. Fyrirtækið, sem er sölu- og markaðseining innan Icelandair, hefur gert annan samstarfssamning við Air Niugini, sem er rótgróið og að hluta ríkisrekið flugfélag á Papúa-Nýju-Gíneu.

Nýi samningurinn, sem er til tólf mánaða, tók gildi í síðustu viku og felur í sér leigu á Boeing 767-breiðþotu, auk viðhaldsþjónustu, þjálfunar á flugvirkjum og fleira.

Fyrri samningurinn tók gildi í september og felur í sér leigu á Boeing 757, ásamt áhöfn, viðhaldi og tryggingum. Flugmenn og flugstjórar eru því íslenskir en flugfreyjur eru frá Papúa-Nýju-Gíneu. Að sögn Guðna er daglegt flug þaðan til Ástralíu, til hagræðingar auglýsti Icelandair því eftir flugmönnum sem væru tilbúnir að flytja tímabundið til Ástralíu frá og með áramótum, sem hefur gefist vel.

„Samstarfið hefur undið upp á sig, við höfum í auknum mæli aðstoðað við þjálfun áhafna og tekið þátt í þróun félagsins á öðrum sviðum. Það hentar vel að styrkja stöðuna í Eyjaálfu og SA-Asíu. Árstíðabundnar sveiflur þar koma á móti þeim sem eru á núverandi markaðsvæðum Icelandair, þ.e. þegar háannatíma lýkur eftir sumarið í Evrópu aukast ferðalög á þessu svæði. Með svona samningum má því nýta betur vélaflota Icelandair.“

Í hnotskurn
» Air Niugini var stofnað í nóvember 1973. Ríkið á 60% hlut í félaginu á móti áströlsku flugfélögunum Ansett, Qantas og Trans Australia Airlines.
» Loftleiðir Icelandic var sett á fót árið 2003 í núverandi mynd. Meðal viðskiptavina félagsins eru British Midland, Israir, Northwest og Iceland Express.