Vorverkin Að ýmsu ber að huga þegar kemur að viðarvörn og skiptir miklu að grunnvinnan sé góð og veður þurrt.
Vorverkin Að ýmsu ber að huga þegar kemur að viðarvörn og skiptir miklu að grunnvinnan sé góð og veður þurrt. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú þegar vorið lætur loksins á sér kræla fer fólk að dytta að í görðum sínum. Kristín Heiða Kristinsdóttir fékk að vita ýmislegt um viðhald á pöllum, grindverkum, garðhúsgögnum og öðru sem gert er úr timbri og kemur misjafnt undan vetri.

Ég mæli með að fólk fari ekki af stað með það að bera viðarvörn á tréverk fyrr en í maí, þegar lofthitinn er að jafnaði ekki lægri en fimm til sex gráður yfir daginn, því það er hætta á að það sé raki í timbrinu eftir veturinn. Viðurinn þarf að vera orðinn vel þurr áður en hafist er handa,“ segir Þorsteinn Viðar Sigurðsson, formaður Málarameistarafélagsins.

„Eins þarf að vera gott veður framundan þegar fólk fer í það að viðarverja. Ef fólk þvær til dæmis viðinn fyrst, þarf að vera góður þurrkur í tvo til þrjá daga eftir það, svo hann sé orðinn þurr áður en borið er á. En það er auðvitað allt í lagi að þvo viðinn í rigningu.“

Rigning og sól vinna á viðnum

Þorsteinn segir að misjafnt sé hversu oft þurfi að viðarverja, sumir geri það annað hvert ár, en aðrir þriðja hvert ár. „Það fer eftir vindáttinni hversu mikið mæðir á viðnum á hverri hlið. Rigningaráttirnar, austan- og sunnanáttin, eru duglegar að vinna á viðnum, í það minnsta hér á höfuðborgarsvæðinu. Og þó að sólin sé góður vinur okkar er hún svolítið slæm fyrir timbrið því geislar hennar brjóta niður viðarvörnina.“

Ef pallar eru mjög stórir og viðargrindverk margir fermetrar, getur verið mikil vinna að viðarverja öll herlegheitin. „Það getur lagt hvern mann í bælið að ætla að pensla slíkt, enda fær fólk oft fagmenn í verkið. Þá er viðurinn oft sprautaður en ekki penslaður, sem tekur styttri tíma.“

Áður en viðarvarið er, þarf að byrja á því að losa allan gráma úr viðnum og slípa yfir. „Sumir hafa farið út í það að háþrýstiþvo viðinn með léttum þvotti og ekki miklum þrýstingi, en aðrir nota sandpappír og pússa þetta upp á gamla mátann.“

Sérstaka pallaolíu á pallana

Þorsteinn segir að eftir upphreinsun þurfi að bera grunnfúavörn á alla bera fleti viðarins þar sem öll málning hefur farið af. „Síðan eru yfirleitt farnar tvær umferðir yfir með hina eiginlegu viðarvörn. Þrennskonar efni eru í boði til að viðarverja. Annars vegar eru það gömlu góðu olíuefnin sem ég mæli persónulega með, vegna þess að þau smjúga vel inn í viðinn og endast vel. Síðan eru það vatnsefnin sem vilja sitja vel á viðnum því þau mynda nokkuð góða filmu, sem hefur þann galla að vilja flagna af, nema fólk annist þetta mjög vel. Í þriðja lagi eru það efni sem eru blanda af vatni og olíu, sem er nokkuð sniðugt, því þá smýgur olían inn í viðinn en vatnsefnið sest utan á viðinn og ver hann.“

Á pallana sem gengið er á er borin sérstök pallaolía sem smýgur mjög vel inn í viðinn. „Það er ekki gott að bera efni á palla sem myndar filmu því það liggur svo mikið vatn á pöllunum og því er mikil hætta á flögnun mjög fljótt. Það getur komið fólki í koll að vera of duglegt að bera á pallana. Ég mæli frekar með því að bera sjaldnar á þá, en fylgjast vel með ástandinu, heldur en að vera að bera á hverju ári og fá mikla filmu sem flagnar.“

Verja skal trjágróður ef viðarvörn er sprautað yfir flötinn

Fyrir þá sem vilja hugsa um umhverfið, segir Þorsteinn að öll þessi viðarverjandi efni séu eitthvað mengandi. „Vatnsefnin eru þó augljóslega minnst mengandi. Ef viðarvörn er sprautað á viðinn, er mikilvægt að verja trjágróður og annað sem er í nágrenni við það sem sprautað er á. Olíuefnin eru ekki mjög væn fyrir lifandi trjágróður,“ segir Þorsteinn og bætir við að það geti borgað sig að fá fagmenn í verkið, því þá getur fólk verið öruggt um að þetta sé rétt gert auk þess sem árs ábyrgð sé þá á verkinu.

khk@mbl.is