— 24Stundir/Brynjar Gauti
Fyrirtækið Eff2 technologies ehf. bar sigur úr býtum í frumkvöðlakeppni Innovit. Vinningstillagan gæti skipt sköpum í stríðinu gegn ólöglegu niðurhali.

Eftir Viggó I. Jónasson

viggo@24stundir.is

„Þetta er mjög mikill heiður og þetta eykur líka trúverðugleika okkar erlendis, en þar er okkar aðalmarkaður,“ segir Friðrik Heiðar Ásmundsson, einn stofnenda Eff2 technologies sem bar sigur úr býtum í frumkvöðlakeppni Innovit. Hugbúnaður þeirra, Videntifier Track, gæti skipt sköpum í baráttu rétthafa gegn brotum á höfundarrétti á niðurhalssíðum á netinu.

„Þetta er hugbúnaður sem getur borið kennsl á kvikmyndaefni. Þetta virkar þannig að við reiknum út eina milljón svokallaðra fingrafara úr hverri bíómynd og setjum svo þessi fingraför inn í gagnagrunn sem við höfum verið að þróa síðustu fjögur ár.“

Eftir að fingraförin eru komin inn í gagnagrunninn getur hugbúnaðurinn leitað að þessum fingraförum á netinu og þannig þefað uppi möguleg brot á höfundarrétti. „Á einni sekúndu getum við leitað að hundruðum þúsunda af svona fingraförum.“

Hugbúnaður sem þekkir klám

Friðrik segir að hugmyndin á bak við hugbúnaðinn sé ekki að skipta sköpum í stríðinu við ólöglegt niðurhal á netinu, þó svo að hann kæmi eflaust að góðum notum í þeirri baráttu. Hann bætir þó við að notkunarmöguleikarnir á Videntifier séu mun fleiri. „Annar möguleiki fyrir þessa vöru er að við getum notað þetta sem klám-filter fyrir börn, til að verjast því að börn komist óvart inn á klámefni á netinu. Kerfið okkar getur greint á milli hvað er klám og hvað er ekki klám.“