Heimildarmynd. Leikstjóri: Larry Kurnarsky. Handrit og leiðsögn: Sean A. Mulvihill. 90 mín. Bandaríkin 2007.
„DON'T Worry Be Happy “ söng Bobby McFerrin fyrir einum 20 árum, þau fleygu orð segja allt sem segja þarf um inntakið í heimildarmyndinni Lifandi ljósberum . Myndavélin eltir handritshöfundinn, Sean Mulvihil, frá einum heimspekingnum og fræðimanninum til annars í leit að leiðinni til að höndla hamingjuna í lífsins ólgusjó. Mikið fjallað um sjálfhverfa íhugun austurlenskra munka frá Tíbet og víðar, trúarskoðanir rabbína, lausnir íslams, kaþólikka, kristinna manna, baptista, svo eitthvað sé talið. Rætt við höfunda metsölubóka á borð við The Power of Now , The Rythm of Life , sem allar fjalla um sjálfshjálp í leit að lukkunni og innra friði.

„Ljósberarnir“ hafa forvitnilegan boðskap fram að færa og er myndin áhugaverðust þeim sem leita svara og eru að reyna að fá einhvern botn í lífsgátuna. Hvort sem árangur hegðunar á lífsleiðinni er tengdur frammistöðu okkar á fyrri tilveruskeiðum eða afstöðu stjarnanna... þá eru flestir spekingarnir sannfærðir um að vald yfir andanum kemur aðeins með trú, kærleika og að geta fyrirgefið öðrum og ekki síður sjálfum sér.

Jákvæðni er eitt af grundvallaratriðunum og mætti í því sambandi benda fréttamönnum á að það finnast líka jákvæðar fréttir en þær virðast ekki par vinsælar um þessar mundir. Ég vil því sérstaklega hvetja fréttastjóra sjónvarpsstöðvanna til að missa nú ekki af Lifandi ljósberum !

Sæbjörn Valdimarsson