NÝJAR rannsóknir sýna, að það hafi í besta falli engin áhrif að taka inn vítamín og í versta falli, að þau geti stuðlað að ótímabærum dauða. Þá er heldur ekkert, sem bendir til, að svokölluð andoxunarefni hafi einhver áhrif á ævilíkur manna.

NÝJAR rannsóknir sýna, að það hafi í besta falli engin áhrif að taka inn vítamín og í versta falli, að þau geti stuðlað að ótímabærum dauða. Þá er heldur ekkert, sem bendir til, að svokölluð andoxunarefni hafi einhver áhrif á ævilíkur manna.

Rannsóknin var unnin hjá hinni virtu Cochrane Collaboration-stofnun, sem fæst við að meta árangur í heilsugæslu- og heilbrigðismálum, og í henni er meðal annars vitnað í vísindamenn við Kaupmannahafnarháskóla, sem segja, að A- og E-vítamín geti haft óæskileg áhrif á ónæmiskerfið. Raunar virðist sem þau auki líkur á ótímabærum dauða.

Rannsóknin náði til 233.000 manna, heilbrigðra og sjúklinga, sem allir tóku inn vítamín. Niðurstaðan var, að A-vítamín í pilluformi yki dánarlíkur um 16%, beta-carotene um 7% og E-vítamín um 4%. C-vítamín virtist engin áhrif hafa, hvorki til né frá.

Breska heilbrigðisráðuneytið hefur raunar varað fólk við því að taka mikið af vítamínum í pilluformi. Rétta leiðin sé að borða fjölbreyttan og hollan mat.

Framleiðsla og sala á tilbúnum vítamínum er mikill iðnaður, sem veltir um 185 milljörðum ísl. kr. árlega. Breskir talsmenn hans fullyrða, að margt fólk geti ekki unnið allt það vítamín, sem það þarfnist, úr fæðunni.