Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur thorakristin@24stundir.is Í Reykjavík eru um 550 biðstöðvar fyrir strætisvagna og eru strætóskýli á um 350 þeirra. Þar með bíða farþegar án skjóls fyrir veðri og vindum á um 200 biðstöðvum.

Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur

thorakristin@24stundir.is

Í Reykjavík eru um 550 biðstöðvar fyrir strætisvagna og eru strætóskýli á um 350 þeirra. Þar með bíða farþegar án skjóls fyrir veðri og vindum á um 200 biðstöðvum.

Strætóskýli borgarinnar tilheyra þremur aðilum. Reykjavíkurborg sér um kaup á rauðu og gráu skýlunum en viðhald og rekstur þeirra er í höndum Strætó bs. Þeir síðarnefndu ráða jafnframt miklu um staðsetningu skýlanna.

AFA JCDecaux sér svo um viðhald og rekstur auglýsingaskýlanna svokölluðu og semur um staðsetningu þeirra við Reykjavíkurborg.

Farþegum mismunað

„Við röðum skýlunum auðvitað eftir farþegafjölda en spurningin snýst um það hvort mismuna eigi farþegum eftir því hvort þeir taka strætó á mikið eða lítið notaðri biðstöð. Okkur líður ekki vel með að mismuna farþegum á þennan hátt, sérstaklega ekki eins og veðurfarið er hér á landi og myndum heldur vilja að skýli væru á öllum stöðvum,“ segir Einar Kristjánsson, sviðsstjóri þjónustusviðs Strætó bs.

Ætlar að fjölga skýlunum

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri, sem verið hefur talsmaður betra aðgengis í strætó og lægri gjalda, segir sjálfsagt að fjölga strætóskýlum borgarinnar.

„Það er augljóst að ef við ætlum að bæta aðgengi að strætó þurfum við bæði að auka tíðni ferða og bæta aðgengi farþega.

Við í meirihlutanum leggjum mikla áherslu á að efla vistvænar samgöngur og því tilheyrir að fjölga strætóskýlum. Svo að já, við ætlum okkur að gera þetta,“ segir hann.

Ólafur tekur þó fram að hann hafi ekki kynnt sér þetta mál og ætli að skoða hvort nú þegar sé unnið að fjölgun skýla í borginni. Jafnframt segist hann ekki vita hvenær skýlunum verður fjölgað.

Þekkir þú til?

Í hnotskurn
Í borginni eru um 140 rauð skýli og um 70 rauð skýli. Rekstur þeirra er á ábyrgð Strætó bs. Jafnframt eru um 140 græn skýli sem kölluð eru auglýsingaskýli. Þau eru í umsjá AFA JCDecaux. Um þau samdi borgin við AFA árið 1998 til tuttugu ára.